Stuðningur vex við Háskólasetur Vestfjarða - Landssamband smábátaeigenda

Stuðningur vex við Háskólasetur Vestfjarða


Á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 2. apríl sl. var samþykkt að óska eftir að sjávarútvegsráðuneytið komi að eflingu rannsókna á sviði sjávarútvegs á vettvangi Háskólaseturs Vestfjarða.

Tillaga bæjarfulltrúanna Gísla H. Halldórssonar og Sigurðar Péturssonar þessa efnis var samþykkt.:

,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar óskar eftir að sjávarútvegsráðuneytið komi að því í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða, Rannsóknarráð Íslands, Landssamband smábátaeigenda og fleiri hagsmunaaðila, að efla rannsóknir á sviði sjávarútvegs á vettvangi HsVest. Í áliti Háskólaseturs Vestfjarða hefur komið fram áhugi á samvinnu um málið við samtök smábátaeigenda og aðra aðila, um ákveðin verkefni svo sem söfnun upplýsinga og vistun gagnabanka með upplýsingum frá sjómönnum. Einnig leggur HsVest, til að sett verði á laggirnar rannsóknarverkefni á vegum doktorsnema og fræðimanna um rannsóknarspurningar sem varða sjálfbærni sjávar og aðra þætti í lífkeðju hafsins umhverfis landið.

Því tekur bæjarstjórn undir óskir HsVest, um að stofnuð verði ,,doktorsnematorfa“, með þeim hætti sem HsVest leggur til. Jafnframt óskar bæjarstjórn eftir því að ráðuneytið komi að því með beinum hætti að efla rannsóknir í þorskeldi á Vestfjörðum, s.s. með veiðum til áframeldis og styrkjum til þróunarverkefna.“

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...