Togararallið 2008: Þorskurinn upp og ýsan niður - Landssamband smábátaeigenda

Togararallið 2008: Þorskurinn upp og ýsan niður


Fréttatilkynning Hafró af nýafstöðnu togararalli ber þær ánægjulegu fréttir að stofnvísitala eins árs þorsks og eldri mælist nú 12% hærri en í rallinu 2007.
Tæpast verður það rakið til minna veiðiálags, því það er engan vegin farið að skila sér í „uppbyggingastarfinu" frá því kvótinn var skorinn niður í 130 þúsund tonn í byrjun síðasta fiskveiðiárs.

Togararallið 2008 er frábrugðið þeim fyrri að því leiti að tekin voru 50 aukatog í útköntum og á grunnslóð. Fróðlegt verður að vita hversu mikil áhrif þessar aukatogstöðvar höfðu á niðurstöður togararallsins.

Athygli vekur að hitastig sjávar við botn mældist heldur lægra en undanfarin ár. Þetta hljóta að teljast tíðindi í ljósi umræðunnar um hlýnun jarðar og vísan heimsendi innan skamms vegna hennar.

Í tilkynningunni segir að mest hafi fengist af þorski djúpt út af Norður- og Norðausturlandi, í Hvalbakshalla fyrir suðaustan land og á Halamiðum út af Vestfjörðum.
Þetta eru ekki veiðisvæði smábátaflotans nema að mjög litlu leiti. Þegar gefið hefur á sjó fyrir smábátana undanfarið hefur fiskeríið í flestum tilfellum verið með ólíkindum - á veiðislóðum sem togararallið kemur hvergi við sögu.
Eins og kunnugt er hefur verið ótrúlegt fiskerí í Breiðafirði og víða við suðvestur- suður - og suðausturland. Í fréttatilkynningunni segir að það sé í samræmi við fyrra mat á hlutdeild þessara (eldri) árganga í stofni og aflabrögð á vertíð sunnan- og suðvestanlands.
Togin á grunnslóð á þessu svæði eru sárafá og þó þeim sé fjölgað er dauðadæmt að þau breyti nokkru. Marstrollið (sem notað er í togararallinu - og ekki eitt einasta fiskiskip í heiminum notar í dag) aftan í stórum togurum veiðir einfaldlega lítið sem ekkert á grunnslóð - né annarsstaðar.

Það er knýjandi spurning, fyrst talið er til fiskeríið á vertíðarslóðinni í fréttatilkynningunni, hvort Hafró ætli nú að láta það vikta í heildarmati á stofnstærð þorsksins, ásamt því hverju netarallið skilar - en á það er ekki minnst.

Samkvæmt togararallinu hefur ýsustofninn skroppið saman um heil 25%. Svo gríðarleg sveifla hlýtur að teljast með ólíkindum og allt að því náttúruhamfarir í hafi.
Steinbítsvísitalan hækkaði samkvæmt rallinu um 13% en framtíðin rjúkandi rúst sökum þess hve lítið veiddist af smáum steinbít.

Það er í byrjun júní sem Hafró leggur til aflamörk fyrir fiskveiðiárið 2008/2009.

Sjá nánar:

http://www.hafro.is/undir.php?ID=19&nanar=1REF=3&fID=7645

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...