Styttist í grásleppuvertíðina á Nýfundnalandi - Landssamband smábátaeigenda

Styttist í grásleppuvertíðina á Nýfundnalandi


Grásleppuvertíðin á Nýfundnalandi mun að öllum líkindum hefjast hinn 12. maí n.k., en yfirleitt hefjast veiðarnar hinn 28 apríl. Líkt og á Íslandi eru veiðisvæðin allnokkur, fyrst er opnað við suð-vestur og suðurströndina, en síðan færist veiðin til austurs og norðurs.
Á síðasta ári voru aðstæður mjög erfiðar. Gríðarlegir sjávarkuldar gerðu veiðimönnum nánast ókleift að stunda veiðarnar við suðurströndina, ásamt því að hafþök við austurströndina lokuðu stórum veiðisvæðum. Aðstæður nú eru allt aðrar og eru Nýfundnalendingar mun bjartsýnni en á sama tíma í fyrra. Í stað þess sem þeir kalla „gamlan ís“ er nú einungis um „eins árs ís“ að ræða við austurströndina sem er mun minni ógn við veiðimenn. Sjávarhiti er og hærri en á síðasta ári.

Verðlagsmál á Nýfundnalandi á grásleppuhrognum eru talsvert frábrugðin því sem gerist hérlendis. Nokkru fyrir vertíðina setjast samtök veiðimanna og kaupendur hrognanna við samningaborð til að ná samkomulagi. Ef þeir ná ekki saman fer málið fyrir gerðardóm - sem hefur verið tilfellið til nokkurra ára. Nú er hinsvegar komin niðurstaða á milli aðila og verður upphafsverð sem greitt verður til veiðimanna fyrir blaut hrogn 1,5 Kanadadollarar fyrir pundið (var 1,20 í fyrra - gengið þá þýddi kr. 127.- fyrir kg.) - en þýðir nú miðað við gengi dagsins (6. maí 2008) kr. 250.- fyrir kílóið. Þetta segir þó ekki alla söguna, því í lok vertíðar er gert upp við veiðimenn samkvæmt því verði sem fæst í útflutningi. Á síðasta ári var gert upp við þá á u.þ.b. 60% hærra verð en upphafsverðið.

Samtök veiðimanna á Nýfundnalandi (FFAW) eru staðráðin í því að halda veiðinni innan þeirra marka sem árlegt samkomulag milli helstu veiðiþjóðanna kveður á um. Þetta er enginn hægðarleikur fyrir FFAW vegna þess hve upplýsingarstreymi er lélegt frá sumum veiðisvæðanna. En þau munu gera sitt besta. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að vertíðin á Nýfundnalandi er einungis 15 dagar, samanborið við 50 daga á Íslandi - þar sem veiðimenn geta reyndar valið dagana úr 90 daga tímabili. Á hinn bóginn eru einungis um 160 grásleppuleyfi notuð hérlendis á yfirstandandi vertíð, en um eða yfir 3000 bátum er ýtt úr vör á Nýfundnalandi til grásleppuveiða ár hvert.

Til fjögurra ára hafa hagsmunasamtökin í Noregi, Íslandi, Grænlandi og Nýfundnalandi gert með sér samkomulag um að veiða samtals um 28 þúsund tunnur af hrognum (Ísland, Grænland, Nýfundnaland 8000 tunnur hvert og Noregur 4000 tunnur). Markmið samtakanna er að halda jafnvægi milli þess sem veitt er og þess sem markaðurinn þolir, þannig að verð til veiðimanna haldinst viðunandi. Þetta samstarf er nú greinilega að skila árangri og mun því örugglega hvetja grásleppuveiðimenn þessara landa til enn frekari samvinnu.

AL0503_3356-1.JPG

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...