Hörð viðbrögð við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar - Landssamband smábátaeigenda

Hörð viðbrögð við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar


Mikið hefur verið fjallað um ráðgjöf Hafró frá því hún var kunngerð á hádegi sl. miðvikudag.

Eftirfarandi þrjár féttir eru teknar af svæðisútvarpi RÚV á Austurlandi og Vestfjörðum:


„Ráðgjöf Hafró skemmdarverk

Gunnlaugur Finnbogason formaður smábátafélagsins Eldingar á norðanverðum Vestfjörðum segir að það standi ekki steinn yfir steini hjá Hafrannsóknarstofnun.
Hann segir ráðgjöfina nú, vera skemmdarverk og til þess gerða að koma smábátakerfinu á færri hendur. Hann vill láta reka forstjóra Hafró.“


„Smábátasjómenn uggandi

Smábátasjómenn á Austurlandi eru óánægðir með veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar sem kynnt var í gær. Mál manna er að niðurskurður á aflaheimildum ár eftir ár bæti ekki stöðu fiskistofnanna, taka verði aðferðafræði fiskifræðinganna til endurskoðunar.
Ólafur Hallgrímsson formaður félagsins segir stóra gjá milli álits sjómanna annars vegar og fiskifræðinga hins vegar á ástandi fiskistofnanna. Hann óttast að menn gefist upp á greininni, einkum í hinum smærri byggðum þar sem ekki er að öðru að hverfa.“


„Segir eitthvað að hjá Hafró

Sigurður Viggósson framkvæmdastjóri Odda á Patreksfirði segist vera í losti eftir nýjustu tillögur Hafrannsóknastofnunar. Hann segir þessa stofnun vera orðna undraverða og einhver þurfi að fara í endurhæfingu á þeim bænum.
Hann spyr hvernig hægt sé að taka mark á þessari stofnun sem enn boðar niðurskurð þrátt fyrir að enn hafi ekki tekist að veiða uppí ráðgjöfina frá í fyrra.“

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...