Meira af baráttu Greenpeace - Landssamband smábátaeigenda

Meira af baráttu Greenpeace


Í gær var greint frá herferðinni sem Greenpeace hefur hrundið af stað í Bandaríkjunum gagnvart þarlendum fiskkaupendum.
Í þessu sambandi er fróðlegt að skoða heimasíðu samtakanna. Þar er að finna þær tegundir sem samtökin hafa sett á bannlista.
Eðli máls samkvæmt, fyrir Íslendinga, er rétt að skoða þorskinn fyrst af öllu.
Um hann segir á heimasíðunni (þýðing í hrárra lagi):

„Þorskstofnar, beggja megin Atlantshafsins hafa þjáðst af ofveiði og á aðalveiðisvæðum þorsks við Bandaríkin og Kanada eru þeir enn ofveiddir. Í Norð-Austur Atlantshafi eru flestir stofnar þorsks í mjög lélegu ásigkomulagi, með þeirri undantekningu að stofnunum við Ísland og í Barentshafi er betur stjórnað.
Allir stofnarnir eru flokkaðir sem ofveiddir og nýttir á ósjálfbæran hátt. Enn frekari áhyggjur vekur að þorskurinn er iðulega veiddur með botntrollum, sem skemma botnlæg vistkerfi sem eru mikilvæg fyrir margar aðrar tegundir og drepa tegundir sem ekki er sóst eftir".

Það hlýtur að vekja sérstaka athygli þeirra sem fylgjast með þessum málum að samtökin leggja að jöfnu hvernig farið er að málum í Barentshafi og hérlendis. Í fyrrnefnda tilfellinu hefur verið veitt 1 - 1,5 milljónir tonna fram úr ráðgjöf fiskifræðinga frá árinu 2000 - en engu að síður leggja þeir til að veitt verði hátt í 500 þúsund á komandi ári. Hérlendis er bixað um 6 þúsund tonn til eða frá varðandi ráðgjöf Hafró, þrátt fyrir að frávikið frá þeirra ráðgjöf frá árinu 2000 sé aðeins brotabrot af því sem verið hefur í Barentshafi.

Ein af tegundunum sem er á „dauðalista" Greenpeace er ýsan. Ekki skal fjölyrt um þetta, en lesendur geta fræðst um herlegheitin hér:

http://www.greenpeace.org/international/seafood/red-list-of-species

Mun meiri „fróðleik" er að finna á heimasíðu samtakanna og eru lesendur hvattir til að kynna sér hvað þar stendur til boða - t.d. varðandi skötuselinn.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...