Þorskstofninn er ekki í hættu - Landssamband smábátaeigenda

Þorskstofninn er ekki í hættuEftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Morgunblaðinu í gær sunnudaginn 29. júní:

„Örn Pálsson skorar á ráðherra að
hlusta á sjómenn við ákvörðun
heildarafla á næsta fiskveiðiári.

Í einn og hálfan áratug hafa stjórnvöld farið í einu og öllu eftir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um hámarksafla í þorski. Landssamband smábátaeigenda hefur lýst andstöðu sinni við þá blindu stefnu stjórnvalda sem fylgt hefur verið og bent á að hún sé þvert á það sem starfsvettvangur trillukarla gefur til kynna. Þeir leggja áratuga reynslu og skýrslur þessu til sönnunar, en í engu er tekið tillit til þeirra. Gögn sem sýna metþorskafla á sóknareiningu, gott ástand á fisknum og enga vá fyrir dyrum.


Minni afli en litlu færri fiskar

Steininn tók úr er sjávarútvegsráðherra, fyrir réttu ári, ákvað að skerða veiðiheimildir í þorski um þriðjung – 63 þús. tonn. Með ákvörðuninni neyddust útgerðir til að breyta veiðimynstri skipa sinna og hætta beinum þorskveiðum. Veiddu aðallega á þeim blettum sem hefð er fyrir að lítið sé af þorski en von um góða ýsuveiði. Ákvörðun ráðherra leiddi því auk minnkunar á aflaverðmæti til óhagkvæmari útgerðar. Auk þess varð hún til þess að meira veiddist af smærri þorski og því fleiri þorskar í tonninu en var fyrir skerðinguna. „Það liggur nærri að við séum að taka jafnmarga þorska nú og í fyrrahaust, þó við höfum minnkað aflann úr 1.000 tonnum í 600.“, sagði Gunnar Tómasson hjá Þorbirninum í Grindavík í Morgunblaðinu 17.10.2007.


Óskeikul vísindi – reynslan einskis metin

Ég bið lesendur að velta fyrir sér þessari aðferðarfræði og afleiðingunum sem hér var lýst. Samtímis er gott að hafa í huga að um er að ræða unga fræðigrein og vísindamennirnir sjálfir kvarta sáran yfir að skortur sé á rannsóknum, stofnunin í fjársvelti og svo fram eftir götunum. Við þessar aðstæður kvitta stjórnvöld undir að niðurstöður Hafrannsóknastofnunar séu óskeikular og engin ástæða sé til að taka mark á þeim aðilum sem starfa á vettvangnum allan ársins hring. Hér er um grafalvarlega stefnu að ræða og er mér til efs um að fordæmi séu fyrir því að reynsla og þekking séu að engu höfð þegar tekin er jafn mikilvæg ákvörðun og fyrir réttu ári.


Hafró gefur litlar vonir

Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar sem út kom í byrjun þessa mánaðar eru áframhaldandi spár um hrun þorskstofnsins ef sjávarútvegsráðherra vogar sér að víkja frá ráðgjöf fiskifræðinganna. Vonarglæta er gefin ef hann fer að ráðum þeirra, en best væri að skera enn meir niður. Enginn sem umgengst og er í daglegri snertingu við lífríki sjávar lætur það hvarfla að sér að bilið milli veiðiheimilda í þorski og ýsu sé aðeins 30%. Að það sé aðeins 30% meira af þorski en ýsu á miðunum trúir enginn sem þar starfar. Þannig stökkbreytingar hafa ekki orðið í hafinu.


Stjórnvöld hlusti á reynsluboltana

Talsmönnum Hafrannsóknastofnunar hefur tekist vel upp í að gera sjómenn, útgerðarmenn og stjórnvöld að blórabögglum þess eymdarástands á þorskstofninum sem stofnunin telur þjóðinni trú um að sé. Á undanförnum árum hefur verið klifað á því að veiði umfram tillögur Hafró hafi verið 1,5 - 1,8 milljónir tonna. Það rennur því ljúflega ofan í almenning að þorskstofnin sé ein rjúkandi rúst og það sé allt fyrrnefndum að kenna.
Vísindamennirnir leggja gríðarlega áherslu á að ekki hafi verið farið eftir ráðgjöf Hafró um hámarksafla í þorski, aflareglan hefði átt að vera lægri, vanmat nær óhugsandi og því sé staðan eymdin ein.

Hér með er skorað á sjávarútvegsráðherra og stjórnvöld að leggja við hlustir þegar rödd reynslunnar heyrist og taka tillit til sjónarmiða trillukarla og annarra hagsmunaaðila í sjávarútvegi þegar ákvörðun verður tekin um heildarafla í þorski fyrir næsta fiskveiðiár.


---------
Höfundur er framkvæmdastjóri
Landssambands smábátaeigenda

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...