Veiðin gefur besta mynd af ástandi stofnsins - Landssamband smábátaeigenda

Veiðin gefur besta mynd af ástandi stofnsinsEftirfarandi frétt birtist í gær á fréttavefnum interseafood.com


„Aðstoðarforstjóri rússneska sjávarútvegsfyrirtækisins Murman Seafood segir í samtali við FiskeribladetFiskaren að tillaga Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) um 10% aukningu þorskkvótans í Barentshafi lykti af pólítík. Ef ICES segi 10% þá sé óhætt að auka kvótann um 30% án þess að tekin sé nokkur áhætta.


Miklir hagsmunir eru í húfi því 30% kvótaaukning myndi þýða að heildarþorskkvótinn í Barentshafi ykist um 120 þúsund tonn á næsta ári. Megnið af kvótaaukningunni myndi skiptast til helminga á milli Norðmanna og Rússa.


Andrey Roman, aðstoðarforstjóri Murman Seafood, segir ennfremur að kvótaráðgjöfin í Barentshafi sé aðallega ættuð frá Noregi.


Rússneskir fiskifræðingar hafi verið of leiðitamir og nauðsynlegt sé að þeir geri sig meira gildandi á alþjóðavettvangi.


Roman bætir því við að það séu ekki togararöll og rannsóknaleiðangrar sem gefi besta mynd af ástandi þorskstofnsins. Það sé sjálf þorskveiðin á hverjum tíma og samkvæmt henni sé óhætt að auka kvótann um 30%.“

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...