HAFRÓ situr hjá og segir pass - Landssamband smábátaeigenda

HAFRÓ situr hjá og segir pass


Á fundi stjórnar LS sem greint var hér frá í gær var ítarlega rædd ákvörðun sjávarútvegsráðherra um heildarafla næsta fiskveiðiárs. Hæst bar þar umræða um þorsk og ýsu.


Stjórnarmenn lýstu gremju sinni yfir að sjávarútvegsráðherra skyldi ekki taka tillit til sjónarmiða LS um 90 þús. tonna aukningu á þorskafla næsta fiskveiðiárs. Ákvörðun hans um 130 þús. tonna heildarafla væri í senn háskaleg er varðar sókn í aðrar tegundir og afdrifarík hvað varðar möguleika einstakra útgerða að nýta auðlindina á komandi árum.


Á fundinum var ríkjandi það sjónarmið að tvískinnungs gætti í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar.
Er þorskinn varðar gengi stofnunin útfrá því að hægt væri að geyma hann í sjónum og ávaxta þannig. Varðandi ýsuna væri hins vegar opnuð viðkvæm svæði upp í fjöru þannig að hægt væri að ólmast þar með dragnót og troll. Hafrannsóknastofnunin heimilaði slíkt og legði blessun sína yfir að lækkun stærðarmarka varðandi lokun skuli gilda jafnt yfir kyrrstæð og dregin veiðarfæri. Stórsókn þessara stórvirku veiðarfæra á viðkvæm uppeldissvæði þorsks og ýsu liti stofnunin þannig með velþóknun á.


Stjórn LS hefur áhyggjur af því að ekki einn einasti vísindamaður Hafrannsóknastofnunarinnar skuli rísa upp gegn því sem viðgengst á viðkvæmu lífríki grunnslóðarinnar. Algjör þögn, sem ekki er hægt að túlka öðruvísi en að stofnunin sitji hjá og segi pass þegar kröfur stórútgerðarinnar eru afgreiddar.

Fram kom sú hugmynd að rétt væri að stofna skuggaráðuneyti til að ræða ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar. Þar yrði m.a. velt upp reynslu þess að fara að tillögum stofnunarinnar í einstaka tegundum, tillögum sjómanna, upplifun þeirra og úrlestur úr afladagbókum hvað varðar fiskgengd, aðgengi að æti, ástandi fisks og lífríkisins. Einnig væri skuggaráðuneytinu ætlað að meta stöðu markaða fyrir einstaka tegundir o.fl.
Hugmyndin fékk góðan hljómgrunn og verður frekar rædd á aðalfundum svæðisfélaga LS í haust.


Almennt voru stjórnarmenn á þeirri skoðun að Hafrannsóknastofnunin væri búin að ákveða áframhaldandi niðurskurð í þorski. Stofnunin einblíndi á að minni veiði væri það eina sem gilti en engu skipti hvernig sótt væri í stofninn þegar tekið er mið af áðurnefndri stórsókn dragnótar og trolls upp í fjörur.


Á fundinum var mikið rædd óbilandi trú stjórnvalda á vísindinum.
Stjórn LS hefur áhyggjur af því að öll gagnrýnin umræða sem ekki er þóknanleg vísindasamfélaginu sé umsvifalaust gerð tortryggileg og afgreidd sem óábyrg, þrátt fyrir að hún sé byggð á áratuga reynslu þeirra sem allt sitt eiga undir sterkum fiskistofnum.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...