Seglknúnir togarar? - Landssamband smábátaeigenda

Seglknúnir togarar?


Í fréttum undanfarið hefur þess veri getið að LÍÚ sé að athuga þann möguleika að spara olíu með því að láta risastóra flugdreka hjálpa á siglingu og togi. Nokkrir útgerðarmenn sem haft var samband við gáfu hinsvegar minna en ekkert fyrir þessar hugmyndir.

Það er virðingarvert af LÍÚ að athuga alla möguleika til að spara rándýra olíu. Spádómar ganga á þann veg að hún muni hækka enn meir í verði, þó þeir finnist sem spá því að verðið muni lækka verulega innan nokkurra mánaða.

Í þessu sambandi er vert að rifja upp að Landssamband smábátaeigenda (LS) hefur allt frá stofnun 1985, telft fram þeim rökum að smábátarnir eyði miklu minna eldsneyti á hvert kg af veiddum fiski en togararnir. Árið 1992 gaf LS úr skýrsluna „Samantekt gagna um málefni smábátaeigenda“. Þar var að finna fjölbreytta samantekt um smábátaútgerðina, samanborið við stórskipaútgerðina.

Þar var m.a. fjallað um hinn mikla mismun á orkunotkun þessara útgerðarflokka. Skýrslan olli talsverðu fjaðrafoki meðal stórútgerðarmanna á sínum tíma og í fjölmiðlum gerðu þeir óspart grín að málflutningi LS um mismuninn á olíunotkun, m.a. með því að slá því fram hvort „LS vildi þá ekki fara að nota segl við veiðarnar“.

Nú er þetta mál hins vegar ekki lengur efni í aulabrandara, heldur orðið dauðans alvara.
Í ofanálag bætist við að nú fyrirfinnast í auknum mæli kaupendur á fiski sem telja það skyldu sína að líta til þess hversu mikil olía er notuð við veiðarnar.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...