Allur fiskur úttroðinn af þorskseiðum - Landssamband smábátaeigenda

Allur fiskur úttroðinn af þorskseiðum


„Í sjósókn minni við Grímsey norður og útaf Kolbeinsey, sem nú telur þrjá áratugi, hef ég aldrei séð neitt þessu líkt. Allur fiskur hér, þorskur, ufsi, makríll er úttroðinn af þorskseiðum. Oftsinnis hendir það þegar ufsinn, milliufsi ca 60cm, dettur á dekkið að hann springur og seiðin vella útúr honum“, sagði Sæmundur Ólason í Grímsey.


Hann segist telja að hér sé óhemjumagn á ferðinni því nóg sé af æti og vitnar þar til lundaveiðanna í sumar. Lundinn var vel á sig kominn, fullur af smáloðnu og trönusílum.


Sæmundur sagði einnig frá því að í vor hefði hann verið á veiðum norðan við Kolbeinsey. Þar hefði ekki verið hægt að stunda handfæraveiðar neðan við 30 faðma því vegna smákóða, 30 cm þorskur í miklum magni. Hann saknaði þess að ekki hefðu komið meiri fréttir af seiðafundi Hafrannsóknastofnunarinnar við Kolbeinsey sl. haust. Eina sem sagt var að þar hefðu fundist seiði á óhefðbundinni slóð.

„Það skildi þó aldrei vera að trillukarlarnir hefðu rétt fyrir sér – við Ísland er þorskstofn sem auðveldlega þolir 220 þús. tonna ársveiði“, sagði Sæmundur.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...