Af röngum slægingarstuðlum og réttri vigt - Landssamband smábátaeigenda

Af röngum slægingarstuðlum og réttri vigt


Hinn 4. september birtist eftirfarandi grein eftir Arthur Bogason í Fiskifréttum:

Í Skoðun Fiskifrétta hinn 27. ágúst s.l. kyrjaði framkvæmdastjóri LÍÚ International samtakanna um hina hræðilegu ánauð þeirra í fiskveiðikerfinu. Hörmungarnar bera nöfnin byggðakvóti, línuívilnun og ekki síst „rangir“ slægingarstuðlar sem leiða til „ofveiði“ (Ég gef mér að þar hafi framkvæmdastjórinn verið að grínast. LÍÚ lagði til 150-160 þús. tonn í þorski. Hvernig geta þá örlítið frávik frá 130 þús. tonnum verið „ofveiði“?!!) .

Byggðakvóti


Framkvæmdastjórinn tekur byggðakvótann til bæna. Ekki ætla ég að mæra fyrirkomulagið sérstaklega en það er sjálfsagt að huga að því úr hvaða jarðvegi grösin spretta. Ætli ein aðal ástæða þess að byggðakvóti var settur á sé ekki hvernig umbjóðendur framkvæmdastjórans hafa hagað sér. Hin fleygu orð „Guggan verður áfram gul“ skýra hvað ég á við. Hvað sem segja má um þá aðferðafræði sem byggðakvótinn er, þá glittir í honum döngun íslenskra pólitíkusa að spyrna fótum gegn „við eigum að deila og drottna“ stefnu LÍÚ. Pólitíkusarnir fá prik fyrir það.

Línuívilnun


Í útvarpi fyrir skömmu heyrði ég framkvæmdastjórann kalla línuívilnun „hámark heimskunnar“. Jasso. Ég hefði gaman af því að vera vitni að því þegar hann útskýrir þessa „hámarksheimsku“ fyrir kaupendum fisks í Evrópu og Bandaríkjunum. Sjálfur hef ég fengið tækifæri til að segja mörgum þessara aðila frá línuívilnun. Undantekningalaust verða þeir mjög hrifnir og hrósa Íslendingum fyrir uppátækið. Í línuívilnun sjá þessir aðilar fyrst og fremst hvatningu til að nota umhverfisvænt veiðarfæri. Veitir Íslendingum bara nokkuð af því að fá smá hrós fyrir fiskveiðistefnuna svona í ljósi niðurlægingar og hrakfara undanfarinna missera?
Landssamband smábátaeigenda hefur margsinnis ályktað um að línuívilnun nái til allra dagróðrabáta en ekki einungis þeirra sem róa með línu beitta í landi. Vonandi hefst það í gegn, fyrr en síðar.

Slægingarstuðlar


Prósenturnar sem notaðar eru varðandi slóghlutfall eru framkvæmdastjóranum mikið áhyggjuefni. Reglan um hlutfall í þorski er 16%. Í Skoðunargreininni segir framkvæmdastjórinn, eftir að hafa útskýrt þetta: „…það er þó mjög mismunandi eftir árstíma, veiðisvæðum og veiðarfærum“. Stuttu síðar fullyrðir hann að slóghlutfall línu og handfæraafla sé að meðaltali 10%. Þangað vill LÍÚ skrúfa slægingarprósentuna undir formerkjum réttlætis og sanngirni.
Þegar ég hafði lesið þetta sló ég á þráðinn til manns sem kaupir nánast eingöngu óslægðan línu- og færafisk. Hann hefur margsinnis mælt þetta hlutfall inni á gólfi í fiskverkuninni sinni. Ég bar þessa fullyrðingu undir hann. Í svarinu talaði hann á frummálinu, þannig að ég tel best að hafa það ekki orðrétt eftir. Þýtt á nútíma útþynnta íslensku var svarið: þetta er haugalygi. Eftir fjölmargar mælingar á „venjulegum“ línu- og færafiski er niðurstaða hans að þetta hlutfall sé 12,5 – 13%. Sé litið til Austfjarða þessa dagana er gott færafiskerí. Þorskurinn vænn og fullur af makríl og síld. Slóghlutfallið er því mun hærra. Sjálfur stundaði ég skak til nokkurra ára við suðurströndina. Á vertíðarmánuðum var hlutfall slógs iðulega 20 – 25%.
Í skoðunargreininni er ein setning sem slær öðrum við sökum þess hversu arfavitlaus hún er: „Stærstum hluta þorskaflans er landað slægðum og er frádráttur frá aflamarki viðkomandi skipa þá réttur”.
Í þessu sambandi ætla ég að benda lesendum á eftirfarandi:
Þegar smábátar (og aðrir) landa eftir dagróður dregst frá aflaheimildum þeirra nokkuð nákvæmlega það sem þeir draga úr sjó.
Flestir umbjóðendur framkvæmdastjórans á ísfisksveiðum eru hinsvegar að landa nokkurra daga gömlum afla. Til eru mjög nákvæmar rannsóknir á því hvað ferskur fiskur missir í þyngd (vatni) á hverjum sólarhring við geymslu. Þetta getur skipt nokkrum prósentum, eftir því hversu gamall aflinn er og hverrar tegundar. Þannig rýrnar ýsa t.d. mjög við nokkurra daga geymslu í ís. Þessir aðilar fá ekki frádrátt frá sínum aflaheimildum miðað við þyngd úr sjó, heldur því sem vigtin segir.

Hámark þrjóskunnar?


Á árinu 1999 skipaði þáverandi sjávarútvegsráðherra nefnd sem fékk það verkefni að gera samanburð á starfsumhverfi sjóvinnslu og landvinnslu. Hún skilaði skýrslu um mitt ár 2001. Skýrslan er stórfróðleg í ljósi ákalla LÍÚ um „réttlæti“ innan sjávarútvegsins. Sjá: http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/utgefid-efni/sjreldra/nr/590
Þar er m.a. að finna tillögu nefndarinnar um að skylda vigtun afla inná vinnslulínur frystitogaranna. Lagði hún til að breytingin tæki gildi fyrir árslok 2001. Nefndin aflaði sér upplýsinga sem bentu til að tæknilega væri þetta fyllilega framkvæmanlegt. Síðan hefur ekkert gerst í málinu.
Hversvegna er þetta ekki löngu komið í reglur? Hvernig má það vera að þessi tegund fiskvinnslu er undanþegin því að vigta aflann áður en vinnsla hefst? Er hugsanlegt að áhuginn sé takmarkaður í herbúðum þeirra sem sjá aldrei neitt nema rautt þegar hlutirnir snúa að smábátaflotanum?
Það er best að slá botninn í þetta, áður en ég fer að tala á frummálinu.

Arthur Bogason
formaður Landssambands smábátaeigenda

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...