Einar! Láttu verkin tala - Landssamband smábátaeigenda

Einar! Láttu verkin tala


Eftirfarandi grein eftir Kristján Andra Guðjónsson birtist í bb.is sl. þriðjudag 9. september:


„Haustið 2006 þóttist ég sjá að línuívilnun í þorski og steinbít myndi ekki nýtast að fullu vegna síminnkandi aflamarks í þorski. Til að koma í veg fyrir það flutti ég tillögu aðalfundi smábátafélagsins Eldingar á norðanverðum Vestfjörðum um að línuívilnun í þorski yrði hækkuð úr 16% í 20%. Tillagan var samþykkt og í kjölfarið fjallað um hana á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda í október. LS veitti henni brautargengi auk þess að kjósa nefnd til að fara í viðræður við sjávarútvegsráðherra um breytingar á línuívilnun sem undirritaður á sæti í ásamt tveimur öðrum. Skemmst er frá því að segja að ráðherra kom ekki til móts við tillögu aðalfundar LS.KristjanAndri.JPG


Á aðalfundi LS haustið 2007 var tillagan borin fram aftur af Tryggva Ársælssyni og samþykkt á ný. Aftur var talað við ráðherra en allt kom fyrir ekki ráðherra hefur enn ekki séð sér fært um að verða við erindinu. Á síðastliðnum vetri var tillaga um hækkun línuívilnunar borin fram á bæjarstjórnarfundi af bæjarfulltrúum Í-lista í Ísafjarðarbæ. Samþykkt var að vísa henni til atvinnumálanefndar Ísafjarðarbæjar þar sem hún var svæfð af meirihluta nefndarinnar.


Nú hefur leyfilegur heildarafli í þorski verið skorinn gríðarlega niður síðan haustið 2006. Allir hljóta að sjá að línuívilnun mun ekki nást við slíkar aðstæður. Því falla öll rök með því að hækka beri línuívilnun.


Fjórðungssamband Vestfirðinga fjallaði um málefnið nú um helgina og samþykkti að skora á sjávarútvegsráðherra að nýta beri línuívilnun að fullu til línuívilnunar. Undirritaður fagnar skeleggri afstöðu sambandsins til þessa mikilvæga máls.


Í þessu sambandi minni ég á orð forsætisráðherra í umræðum á Alþingi um daginn, að þjóðin yrði að framleiða meira. Fjórðungssamband Vestfirðinga er með samþykkt sinni um breytingu á línuívilnun að óska eftir að það gangi eftir. Þess háttar breyting mundi hjálpa smábátaútgerð t.d. á Vestfjörðum sem núna glímir við mikinn niðurskurð í þorski ásamt verri ytri aðstæðum eins og fram kemur í hækkun allra aðfanga. Enn fremur skal það áréttað að þetta kæmi sveitarfélögum vel, til að mynda með hærri tekjum af meiri afla.


Ég hvet því Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að taka af skarið og hækka nú þegar línuívilnun. Ekki er nokkur vafi í huga mínum að guðfaðir línuívilnunar Guðmundur Halldórsson frá Bolungarvík yrði ánægður með frænda sinn í svoleiðis röggsemi, landsbyggðinni til hagsældar ekki veitir af.


Þakka þeim sem lásu.“


Höfundur situr í stjórn LS

 

efnisyfirlit síðunnar

...