Stóri bramafiskur raðar sér á línuna við Suðurland - Landssamband smábátaeigenda

Stóri bramafiskur raðar sér á línuna við Suðurland


Annað slagið fréttist af nýjum tegundum sem veiðast hér við land. Nýjustu fréttirnar eru frá Þorvaldi Garðarssyni í Þorlákshöfn.
Fyrir nokkru komu tveir óþekktir á línuna hjá honum. Við nánari skoðun kom í ljós að hér var á ferðinni stóri bramafiskur (latin: Brama brama) sem aðallega veiðist við S-vestur Afríku og í Miðjarðarhafi en flækist víða um. Stóri bramafiskur er vinsæll matfiskur á Spáni og Portúgal. Á matseðli á Spáni heitir hann castanyola, í Portúgal chaputa.

Sjá nánar:
http://www.whatamieating.com/?b=1&d=1&t=latin&s=brama+brama&r=All


Þorvaldur sagðist mest hafa fengið 15 fiska í róðri og vissi hann um fleiri sjómenn sem hann hefði bitið á hjá. Aðspurður hvort hann hefði reynt að selja fiskinn á markaðinum, sagði hann svo vera en ekkert hefði fengist fyrir hann. Hann hefði því flakað og fryst stóra bramafisk auk þess að skella nokkrum á grillið. „Hér er um herramannsmat að ræða“, sagði Þorvaldur.


Í bókinni „Íslenskir fiskar“ eftir þá Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson er fjallað um stóra bramafisk. Þar segir m.a.:

„Í ágúst til október árið 1953 veiddu þýskir togarar um 90 fiska í nágrenni Vestmannaeyja auk þriggja á suðvesturmiðum og fimm í Rósagarði og hafa aldrei veiðst svo margir á Íslandsmiðum á einu og sama ári.“

„Hrygning fer fram í Miðjarðarhafi í ágúst og september og í austanverðu Atlantshafi á vorin og sumrin þar sem hitastigið er 19,5 til 24°C.“

Picture 8.png
Stóri bramafiskur

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...