Aðalfundur LS - setningarræða formanns - Landssamband smábátaeigenda

Aðalfundur LS - setningarræða formanns


Dagana 23. og 24. október sl. hélt Landssamband smábátaeigenda 24. aðalfund sinn.   Arthur Bogason formaður flutti eftirfarandi ræðu í upphafi fundarins:


„Ágætu aðalfundarfulltrúar, hæstvirtur sjávarútvegsráðherra og aðrir góðir gestir!

Í upphafi máls míns vil ég byrja á því að minnast þriggja manna sem féllu í valinn á árinu.  Fyrstan tel ég Sigurð Gunnarsson frá Húsavík.  Hann var einn af frumkvöðlum Landssambandsins og lagði ómetanlega hönd á plóginn við stofnun þess.  Sigurður sat í fyrstu stjórn Landssambandsins fyrir hönd Kletts á Norðurlandi.   Í ágúst sl. lést Marinó Jónsson frá Bakkafirði.  Marinó sat í stjórn Landssambandsins frá árinu 2006 fyrir hönd Fonts á Norð-Austurlandi.  Í byrjun október féll frá Eðvald Eðvaldsson, en hann sat til nokkurra ára í stjórn Landssambandsins  fyrir hönd Bárunnar í Hafnarfirði.  Þessum mönnum þakka ég samfylgdina og samstarfið. 

Ég bið ykkur að rísa úr sætum til að minnast þessara föllnu félaga.  


Þetta er í 24. skipti sem ég flyt ykkur setningarræðu aðalfundar Landssambands smábátaeigenda, frá stofnfundi samtakanna í Rúgbrauðsgerðinni við Borgartún hinn 5. desember 1985. 

Mér sem formanni hefur ekki verið jafn mikill vandi á höndum að flytja ykkur ávarp í upphafi aðalfundar samtakanna. 

Uppi eru aðstæður á Íslandi sem engan óraði fyrir.  Uppi eru aðstæður sem kollvarpa öllum áætlunum og áformum.  Uppi eru aðstæður fáránleikans.

Á örskotsstund hefur tilvera okkar Íslendinga breyst. Á örskotsstund hefur íslenskt þjóðfélag hrunið í þeirri mynd sem við höfum þekkt. 

Hvern hefði órað fyrir því þegar við héldum síðast aðalfund að skerðing þorskveiðiheimilda um 1/3 yrði ári síðar smámunir í samanburði við atburðarás síðustu þriggja vikna.


Ég ætla ekki að eyða tíma mínum né ykkar í það fánýti að tyggja upp klisjurnar sem japlað hefur verið á um seka og saklausa.  Sá tími kemur.  Sá tími er ekkert genginn úr greipum.

Minn vandi, sem formaður ykkar, er sá að blása ykkur í brjóst baráttumóð, baráttumóð og bjartsýni.  Við verðum að komast í gegnum þær þrengingar sem framundan eru.  Við verðum að finna lausnir og leiðir.


Ég vil rifja í örstuttu máli þá sögu sem Landssamband smábátaeigenda á að baki.  Ástæðan er sú að mörg ykkar eru henni ekki vel kunnug.

Saga Landssambands smábátaeigenda er baráttusaga.  Hún er saga sigra og ósigra, hún er saga samstöðu og sundrungar.  Í heildina er hún engu að síður saga um sigur samstöðunnar. 

Saga LS er skólabókardæmi um það sem áorkast ef menn leggja til hliðar persónulega hagsmuni og ávinning og einbeita sér að ávinningi heildarinnar.

Því miður er saga Landssambandsins einnig af og til stráð sundurlyndi.  Það eru nákvæmlega þær stundir sem marka þau bakslög sem félagið hefur fengið í seglin. 

Ef einhverntíma hefur verið þörf á skilningi þessara hluta, þá er það nú.  Ef einhverntíma hefur verið þörf fyrir öfluga samstöðu smábátaeigenda, þá er það nákvæmlega núna. 


Í upphafi árs 1984, árið sem kvótakerfið hóf göngu sína, varð smábátaeigendum ljóst að ef þáverandi löggjöf gengi eftir, myndi smábátaútgerðin heyra byggðasöfnum, sagnfræðingum og það sem Íslendingar halda mest uppá við varðveislu báta og skipa, öskuhaugunum til. 

Í árslok 1985 var Landssamband smábátaeigenda stofnað.  Við stofnun félagsins voru veiðiheimildir smábátaflotans um 1/10 af því sem hann hefur í dag. 

Í hverjum átökunum á fætur öðrum, árin 1985, 1987, 1989, 1994, 2001 og 2004 sannaði þetta sig.  Við náðum fram á veginn. 

Grunnurinn var hins vegar lagður árið 1985.  Ef þeim slag, sem þá var tekinn, hefði verið sleppt, værum við ekki að funda hér í dag.  Flóknara er það ekki.  Tilkoma Landssambands smábátaeigenda skóp grundvöllinn fyrir þeirri staðreynd að við erum hér samankomin, tæpum aldarfjórðungi síðar.   

Þessi saga hefur ekki alltaf verið hljóðlát.  Barátta félagsins, barátta LS, er orsök þess að smábátaflotinn er jafn öflugur og raun ber vitni.  Á síðasta fiskveiðiári veiddi hann hlutfallslega meira af heildarafla þorsks en nokkru sinni áður á lýðveldistímanum. 


Í dag eiga Íslendingar nútímalegasta og afkastamesta smábátaflota heims.  Þá staðreynd getur enginn tekið af okkur.  Hvorki forsætisráðherra Bretlands né nokkur annar.      

Hin sterka staða sem smábátaflotinn hefur innan sjávarútvegsins kom ekki til af sjálfu sér.

Um þessar mundir dynja á íslensku þjóðinni látlausar niðurlægjandi fréttir.  Á okkur dynja ásakanir sem nísta merg og bein.  Ásakanir um óráðsíu, óábyrgni og ófyrirsjálni.  Á erlendum vettvangi er þjóðin rúin trausti og trúverðugleika.  Bankafólk erlendis býðst jafnvel til þess að taka ómakið af Íslendingum og henda fyrir það íslenskum peningaseðlum í ruslatunnuna.

En það eru ekki allir jafn illa undirbúnir undir það sem dynur nú yfir íslenska þjóð.  Mörg litlu sjávarþorpanna hafa hægt og bítandi misst máttinn, misst tiltrúna á framtíðina og staðið frammi fyrir algerri uppgjöf.  Mun þetta hugsanlega fara að snúast til baka?  Munu þau nú mæta meiri almennum skilningi á stöðunni sem þau hafa verið sett í?    


Á tímum sem við nú upplifum skulum við rifja upp grundvallarrök félagsins okkar.  Rökin fyrir öflugri smábátaútgerð.  Það skyldi þó ekki vera að þessi rök eigi sér gildi sem aldrei fyrr. 

Fyrir margt löngu lét LS prenta lítinn límborða sem bar skriftina:  Smábátar: 3X meiri atvinna.  Mussuklæddir boðberar endalausrar hagræðingar um fækkun starfa í sjávarútvegi gerðu gys að þessum skilaboðum.  Atvinnuleysi eykst nú á hverjum degi á Íslandi.  Er ekki full ástæða fyrir stjórnvöld að huga að þeirri staðreynd að veiðar smábáta skapa hæst hlutfall starfa miðað við afla úr sjó?

Hinir sömu hempuklæddu predikarar gerðu rungandi grín að LS árið 1992 þegar félagið benti á þá staðreynd, studda af skýrslu Sjávarútvegsstofnunar Háskóla Íslands,  að smábátaflotinn eyddi margfalt minni olíu til að ná í hvert tonn af fiski, í raunhæfum samanburði við ísfiskstogara.  Er ekki full ástæða fyrir stjórnvöld að huga að þessari staðreynd, þegar gjaldeyrir hefur aldrei verið dýrmætari og loftslagsmál komin í þann farveg að þjóðir heims verða hreinlega þvingaðar til að draga úr útblæstri?


LS hefur alla tíð haldið því fram að notkun veiðarfæra skipti miklu máli varðandi umgengnina um fiskimiðin.  Um þetta þarf ekki mörg orð.  Stigvaxandi þrýstingur kaupenda á íslenskum fiski beinist í þá átt að hann komi af kyrrstæðum veiðarfærum.  Það er því alsendis með ólíkindum hvernig snurvoðaveiðar eru nú stundaðar, jafnvel á fullvöxnum togurum uppí fjörusteina, hringinn í kringum landið og hólf sem lokuð hafa verið til langs tíma opnuð fyrir togaraflotanum.  Er ekki orðstýr þjóðarinnar alveg nógu illa leikinn? Þarf að bæta þar um betur?    

Staðreyndin er sú að þau rök sem við höfum barist með frá stofnun Landssambandsins standast tímans tönn og eiga kannski aldrei betur við en núna. 


Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að rekstrarumhverfi smábátaútgerðarinnar - og sjávarútvegsins í heild - er í stórkostlegri hættu eftir gengishrun krónunnar.  Margir sem áttu drjúgan hluta í fyrirtækjum sínum fyrir fáeinum vikum eiga nú minna en ekki neitt. 

Umsvifalaus frysting lána er beinlínis lífsnauðsynleg, en slík aðgerð er þó aðeins tímabundið verkjalyf.   Um lánin verður að semja.  Verði það ekki gert þarf ekki að spyrja að leikslokum. 

Í þessu sambandi hefur verið hreint ótrúlegt að heyra einstaka stjórnmálamenn fjalla um núverandi ástand og lýsa því að „undirstöður þjóðfélagsins standi traustum fótum, til dæmis sjávarútvegurinn”. 

Ég leyfi mér að spyrja:  Á hvaða plánetu búa þeir sem svona tala?  Staðreyndin er vissulega sú að íslenskur sjávarútvegur stendur traustum fótum - á botninum í skuldafeni uppfyrir haus.        

Dag eftir dag bíður þjóðin í ofvæni eftir fréttum af því hvernig framtíð bíður hennar.  En eitt er algerlega víst.  Í landinu þrífst þjóðin ekki án öflugs sjávarútvegs.  Og sjávarútvegurinn þrífst ekki nema að hafa heilbrigt rekstrarumhverfi.

Við þær aðstæður sem uppi eru þurfa stjórnvöld að grípa til margvíslegra aðgerða sem skapa störf, efla byggð og afla gjaldeyris og spara hann í senn.  Stjórnvöld verða að grípa til aðgerða sem glæða von og það er hægt ef vandað er til verka.

Efling smábátaflotans fellur fullkomlega að slíkri aðgerðaráætlun. Og ég skora hér með á sjávarútvegsráðherra að efna til öflugs samstarfs við smábátaeigendur á þessu sviði.


Ágætu fundarmenn!

Við skulum halda ótrauð áfram þeirri baráttu sem félagið stendur fyrir.  Hún er í þágu þjóðarinnar allrar.

Ég skora á ykkur, fundarmenn góðir, að nota aðalfundinn til þess að móta skýrar tillögur um þessi brýnu mál.  Oft hefur verið þörf, en nú er nauðsyn.

Ég segi hér með þennan 24. aðalfund Landssambands smábátaeigenda settan.“ 
 

efnisyfirlit síðunnar

...