Ábyrgð og áreiðanleiki - aðferðafræði Hafró - Landssamband smábátaeigenda

Ábyrgð og áreiðanleiki - aðferðafræði Hafró 

Eftirfarandi grein eftir Halldór Ármannsson birtist í Morgunblaðinu 30. september sl. skrifar um aðferðafræði Hafró

            „Það verður seint sagt um þá ríkisstjórn að hún hafi sýnt af sér ábyrgð.  Að taka trúanlegar og fara eftir ráðleggingum Hafrannsóknastofnunar og skerða þorskkvóta fiskveiðiársins 2007/2008 um 33%, og halda sig síðan áfram við 130 þús. tonna þorskkvóta á því kvótaári sem nú er nýhafið, er illa ígrundað og óábyrgt.  Hvað Hafró gengur til með þessum tillögum sínum er erfitt að segja til um, en aðferðafræði sú sem stunduð er til að mæla stofnstærð við Íslandsstrendur er löngu orðin úrelt vegna allra þeirra breytinga sem orðið hafa í hafinu.

 

Rallið fann ekki síldina

            Að halda því fram að dagsetning sú sem byrjað var að ralla og mæla þorskstofninn við landið sé svo heilög, að tungl, sem kvikna á 28-29 daga fresti, þori ekki annað en kvikna á réttum tíma að ári fyrir Hafró.  Það er kannski með Hafró eins og manninn sem hélt að það væri alltaf flóð á morgnana.  Það er nefnilega þannig með fisk að hann gefur sig ekki alltaf til á sama klukkutímanum dag eftir dag, en þetta vita þeir hjá Hafró ekki því að þeir eru ekki fiskimenn eða veiðimenn, þeir eru bara að telja fiska.

HalldorArm.jpg

  Á sama degi, sama tíma, sama stað, með sömu veiðarfærum og notuð voru fyrir u.þ.b. 25 árum síðan, togað á sama hraða, í sömu átt, alveg sama hvort er á móti eða undan straumi.  Ár eftir ár eftir ár.  Og þetta kalla menn rannsóknir.

 Síldin sem veiddist inni við Grundarfjörð sl. haust, ,,það getur ekki verið” hlýtur Hafró að segja: ,,það hefur aldrei veiðst síld þarna áður”.  Makríllinn sem er að veiðast við mestallt landið, og í þvílíku magni fyrir sunnan og austan land. ,,Þvílíkt bull” segja þeir hjá Hafró ,,það hefur aldrei veiðst makríll við landið áður”.  Þetta hlýtur að vera þeirra viðhorf því allavega er það þannig gagnvart þorskinum.

 

Tiltrú sjómanna á Hafró fer minnkandi

            Hlýnun jarðar er staðreynd og meira að segja þorskurinn hefur vit á því að færa sig til eftir ætinu í ætisleit sinni. En það þýðir ekki að það sé jafnlítið af þorski innan landhelginnar og Hafró segir, enda eru þeirra útreikningar byggðir á líkindum og það er mikið um ,,ef” í þeim útreikningum.  Þorskseiði flæða nú með ströndum Norður- og Austurlands svo sjaldan hefur sést annað eins. Atburðurinn virðist ekki gefa tilefni til skoðunar eða álits Hafró, nei, þeir ætla að telja seiðin í október á sömu stöðum og þeir eru vanir að gera ár eftir ár eftir ár. Tiltrú sjómanna á Hafró fer alltaf minnkandi og það sama getur jafnvel átt við á hinn veginn. En eitt er það sem sjómenn geta ekki og það er að falsa aflatölur einhver ár aftur í tímann, en það fara þeir hjá Hafró létt með.  Þó ekki aflatölur, heldur stofnstærðarmat, það er einfalt að kalla það ofmat eða vanmat eftir því sem við á og það einhver ár aftur í tímann.  Niðurskurður Hafró í þorski er ekki út af lélegri veiði hjá fiskiskipaflotanum: ,,Nei, nei, við vitum alveg að það er mjög góð veiði af þorski í flest veiðarfæri, og sumstaðar þar sem aldrei hefur sést þorskur áður, en það myndar skekkju í reiknilíkaninu, of mikil frávik” o.s.frv. Þetta segja þeir og er þeirra viðhorf.  Fiskurinn á að vera þægur og gera eins og þeir segja.

 

Viðhorf stjórnvalda til niðurskurðarins

            Niðurskurðurinn var líka mikið til heimatilbúinn því sérstaklega var tekið fram að í hann væri farið vegna ,,sérstaklega” góðrar stöðu þjóðarbúsins á þessum tíma júní-ágúst 2007.  Þetta básúnaði seðlabankastjóri, og sagði að ekki væri hægt annað en fara eftir Hafró (en vissi þó betur sjálfur en Hafró fyrir kosningar 2003 og bætti við 30 þús. tonnum af þorski það fiskveiðiárið), við hefðum ekkert annað til að miða við.  Forsætisráðherra tók í sama streng og sagði að hann vildi ekki að gengið yrði frá þorskstofninum meðan að hann væri hér við stjórn.  Skýrði ekki nánar hvort hann ætti við sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar eða sjómenn.  Í dag getum við horft til baka um eitt ár og séð hve mikill áreiðanleiki var að baki yfirlýsinga þessara tveggja um stöðu þjóðarbúsins.  Það er miklu meira af þorski í sjónum heldur en Hafró heldur fram, það þarf bara að fara út fyrir reiknireglu Hafró til að sjá það!  Og það er miklu verri staða í þjóðarbúinu heldur en kollegarnir halda fram, við, almenningur í landinu sjáum og finnum það!

            Því skora ég á ríkisstjórn Íslands að taka sig nú saman í andlitinu auka þorskkvótann í 190-200 þús. tonn á fiskveiðiárinu.  Og Geir:  framleiðum, framleiðum, framleiðum.

 

Höfundur er formaður Reykjaness og í stjórn LS.“

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...