Ótti við réttindamissi óþarfur - Landssamband smábátaeigenda

Ótti við réttindamissi óþarfur


 


 

Siglingastofnun Íslands tók við útgáfu atvinnuskírteina sjómanna 1. janúar 2008. Til þess tíma höfðu skírteinin verið gefin út af sýslumönnum og Tollstjóranum í Reykjavík.

 

LS hefur um langt árabil farið fram á að atvinnuskírteini sjómanna yrðu sameinuð í eitt og gildistími þess lengdur. Hvoru tveggja hefur nú gengið eftir. Gildistíminn hefur verið lengdur úr 5 árum í 10 ár þegar um endurnýjun er að ræða og þeir sem hafa bæði skipstjórnar- og vélgæsluréttindi fá útgefið eitt skírteini sem sýnir réttindi þeirra. 10 ára gildistími gildir þó eingöngu um réttindi sem falla ekki undir alþjóðasamninga (STCW og STCW-F) sem eru skipstjórnarskírteini að 24 metrum að skráningarlengd og vélstjórnarskírteini á skip með aðalvél 750 kW. og minni.


 

Samgönguyfirvöldum og Siglingastofnun er hér með þakkað fyrir framgang þeirra í þessu málefni.

 


Á aðalfundum svæðisfélaga LS nú í haust hefur nokkuð borið á áhyggjum yfir réttindamissi ef viðkomandi hefur ekki starfað við skipstjórn og vélgæslu í 1 ár af næstliðnum 5 árum. Að sögn Helga Jóhannessonar, forstöðumanns stjórnsýslusviðs Siglingastofnunar er sá ótti óþarfur þar sem sú regla á aðeins við um réttindi sem falla undir alþjóðasamninga (STCW og STCW-F). Viðkomandi hefur aflað sér þessara réttinda og þó hann hafi ekki stundað sjómennsku um nokkurn tíma fær hann réttindin endurnýjuð enda uppfylli hann heilbrigðiskröfur.  


 

Helgi tók fram að nauðsynlegt væri að halda réttindunum við og endurnýja áður en skírteinið rynni úr gildi.

 

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...