Sjávarhiti - hlýrra í Grímsey en í Reykjavíkurhöfn - Landssamband smábátaeigenda

Sjávarhiti - hlýrra í Grímsey en í Reykjavíkurhöfn


 

Það vekur athygli að í dag 5. nóvember skuli sjávarhiti í Grímsey vera hærri en í Reykjavíkurhöfn. 

Á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar má sjá að í haust hefur sjávarhitinn nánast ekki farið niður fyrir 6°C á meðan hann hefur haldið sig undir því hitastigi í Reykjavíkurhöfn.   Var í morgun 6,3°C  í Grímsey en 5,9° í Reykjavíkurhöfn.

Sjávarhiti.png

 

Að sögn Sigfúsar Jóhannessonar útgerðarmanns í Grímsey er þetta mjög óvenjulegt ástand. 

„Á þessum tíma árs er hitinn yfirleitt milli 3 og 4 gráður.  Nú er óvenjumikið æti og eitt sem ég hef ekki séð frá því ég byrjaði að róa, fyrir hálfri öld síðan, er mikið magn af síld.  Hún er ca. fingurslengdin og því trúlega eins árs.  Fiskurinn djöflast í henni og er vel haldinn“, sagði Sigfús.

SigfusJoh.jpg

Sigfúst sagði tíðarfarið í haust hafa verið mjög erfitt, þrálátar vestanáttir.  Hann hefði því nánast ekkert komist frá eyjunni til að kanna svæðin norðar.  Ég er enn á handfærum og hef komist í 2 tonn af ufsa á dag sem telur nú ekki marga klukkutímana á þessum árstíma.  Verðið á ufsanum er ágætt kringum 80 kr/kg, í fyrrahaust lágu ufsaveiðar hins vegar niðri sökum þess hvað verðið var lélegt, varla hærra en 20 - 30 krónur, sagði Sigfús.

 

Aðspurður um þorskinn sagði Sigfús hann hegða sér einkennilega, væri á stjarnfræðilegu dýpi, fengist ekki ofan við 150 faðma, undir því dýpi er hins vegar mok. 

„Þorskurinn er eins og annar fiskur hér í góðum holdum og vel á sig kominn“, sagði Sigfús að lokum.

 

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...