Stjórn Landssambands smábátaeigenda ályktar um aukningu þorskveiðiheimilda - Landssamband smábátaeigenda

Stjórn Landssambands smábátaeigenda ályktar um aukningu þorskveiðiheimilda


Í tilefni þess að sjávarútvegsráðherra hefur aukið við aflaheimildir í þorski ályktar stjórn LS eftirfarandi:

Stjórn Landssambands smábátaeigenda styður heilshugar þá ákvörðun

sjávarútvegsráðherra að auka þorskveiðiheimildir.  Sú ákvörðun var löngu

tímabær.  

Á hinn bóginn er miður að ekki skuli hafa verið tekin ákvörðun um að auka

til muna afla til línu- og handfæraveiða.  Slík útfærsla hefði styrkt

ákvörðunina enn frekar, ásamt því að vera í fullkomu samræmi við yfirlýsingu

ríkisstjórnarinnar um „mannaflsfrekar“ aðgerðir.

 

Stjórnin ítrekar það sem fram kom í ályktun aðalfundar í október 2008:

 

„... vísindamenn Hafrannsóknastofnunarinnar harðneita að taka minnsta mark á

þeirri eindregnu skoðun veiðimanna hringinn í kring um landið, að ástand

þorskstofnins gefi ekkert tilefni til að skera veiðiheimildir niður fyrir

öll söguleg lágmörk....Alþjóða Hafrannsóknarráðið lagði til 160 þúsund tonna

hámarksafla þorsks fyrir síðasta fiskveiðiár.  Sú stofnun er þekkt af öllu

öðru en frjálslyndum tillögum varðandi veiðiheimildir....

Hafrannsóknastofnunin skuldar þjóðinni skýringar á því hvaða vitneskju hún

bjó yfir varðandi íslenska þorskstofna, sem Alþjóða Hafrannsóknaráðinu var

ókunnugt um.“

 

Ofsafengin viðbrögð Hafrannsóknastofnunarinnar við ákvörðun

sjávarútvegsráðherra vekja upp a.m.k. tvær spurningar.

 

Hvers vegna sýndi stofnunin ekki sambærileg viðbrögð við tillögu Alþjóða

Hafrannsóknaráðsins?

 

Er Hafrannsóknastofnunin nú þeirrar skoðunar að Alþjóða Hafrannsóknaráðinu

sé ekki treystandi og tekinn skuli af því tillögurétturinn - rétt eins og

stofnunin vill að ákvörðunarrétturinn verði tekinn af sjávarútvegsráðherra?

 

Málflutningur Hafrannsóknastofnunarinnar er óþolandi.  Hún hamast á orðum

eins og ábyrgðarleysi, skammsýni og talar niður til veiðimanna.

 

Á sama tíma er dragnót í stórauknum mæli notuð inn á flóum og fjörðum og

nýir öflugir togarar skarka 3 mílur frá landi - allt með samþykki þessarar

sömu stofnunar.  Þessi þróun er í algerri andstöðu við sívaxandi kröfur

kaupenda fiskafurða um að aflinn sé tekinn með kyrrstæðum veiðarfærum.

 

Stjórn Landssambands smábátaeigenda beinir þeirri eindregnu áskorun til

ráðamanna sem annarra að kynna sér rækilega gögn Hafrannsóknastofnunarinnar,

aðferðafræði hennar við stofnmælingar og herfilegar þversagnir í

málflutningi."  

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...