Til hamingju Egill - Landssamband smábátaeigenda

Til hamingju Egill


 

Egill Kristjánsson sjómaður og trillukarl var kosinn Vestfirðingur ársins 2008.


Egill er 88 ára Súgfirðingur og rær á bát sínum Blikanesi íS 51 sem er í krókaaflamarkskerfi.   Aðallega stundar Egill handfæraveiðar en kippir einstaka sinnum með nokkrum línubölum.   

 

Blikanes er 3,4 brl. að stærð smíðað í Hafnarfirði 1990.  1999 lét Egill, þá 81 árs  setja á bátinn skutgeyma. 


Afli Egils á sl. sumri var tæp 17 tonn, sem hann fékk í 14 róðrum eða rúmt tonn á dag.   Í 8 róðrum kom Blikanesið með meira en 1,7 tonn að landi.  Besti róður Egils var 12. ágúst en þá landaði hann 1.864 kg sem er ótrúlegur árangur hvernig sem á það er litið.

 

Haustið 2005 ákvað Egill að setjast í helgan stein. Gamalt máltæki segir að tvisvar sé sá feginn sem á steininn sest.  Það sannaði Egill rækilega með því að standa upp af hinum helga stein og halda á ný til sjávar á Blikanesinu.

 

Landssamband smábátaeigenda óskar Agli Kristjánssyni til hamingju með útnefninguna.  Egill er vel að henni kominn og lífshlaup hans sannarlega góð fyrirmynd eða eins og segir í ummælum lesenda bb.is: „Hann er hornsteinn vestfirsks samfélags, lifandi fyrirmynd fyrir unga sjómenn, hörkutól og einstakt góðmenni“.

 

 


 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...