Mat á stærð þorskstofnsins - Byggja útreikningar Hafrannsóknastofnunarinnar á réttum meðalþyngdum? - Landssamband smábátaeigenda

Mat á stærð þorskstofnsins - Byggja útreikningar Hafrannsóknastofnunarinnar á réttum meðalþyngdum?


 

Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum sl. fimmtudag 29. janúar.


„Á síðasta aðalfundi Landssambands smábátaeigenda sem haldinn var 23. og 24. október sl. var eftirfarandi samþykkt:

„Gerð verði úttekt á niðurstöðu Hafró um gríðarlegt þyngdartap.  Fengnir verði óháðir aðilar til að leggja mat á þá fullyrðingu Hafrannsóknastofnunarinnar að meðalþyngdir elstu árganga þorsksins séu nú tugum prósenta lægri en langtímameðaltal.“

Tillagan var meðal annars sprottin upp úr umræðum á fundum svæðisfélaga LS eftir að rýnt hafði verið í töflur í ársskýrslum Hafrannsóknastofnunarinnar sem sýna niðurstöður mælinga á þyngd eftir aldri úr þorskafla. Fundarmenn voru á einu máli um að tölurnar endurspegluðu ekki reynslu þeirra á miðunum. 


Gríðarlegur munur á meðalþyngdum

Í niðurstöðum Hafró kemur fram gríðarlegur munur milli ára á meðalþyngd elstu árganganna.  Dæmi eru um árgang sem er rúmum eitt hundrað prósentum þyngri en jafnaldri hans tveimur árum síðar, 2004 og 2006.  Þá einkennir það úttekt þessa að mælingarnar sl. 2 - 3 árin eru langt undir meðaltali tímabilsins 1985 - 2007. Með þessari grein fylgja gröf sem sýna meðalþyngd 8, 9, 10, 11 og 12 ára þorsks á tímabilinu.

 Meðalþyngdir.pdf

Viðbrögð sjómanna við þessum upplýsingum hafa verið undrun og efasemdir. Þeir telja útilokað að slíkt geti hafa gerst án þess að þeir hefðu tekið eftir því. Spurt hefur verið hvort tölur svo langt frá meðaltali hafi verið teknar gildar þegar stofnstærð var reiknuð og þar með verið ein af forsendum stofnunarinnar fyrir ráðgjöf um hámarksafla í þorski.  


Svör Hafrannsóknastofnunarinnar

Þegar athugasemdum um þetta hefur verið komið á framfæri við Hafrannsóknastofnunina hefur því verið svarað að svo fáir fiskar séu í elstu árgöngunum að þetta skipti ekki máli varðandi heildarútkomu á stærð þorskstofnsins. Vissulega nokkuð til í því, en það svar sætta trillukarlar sig ekki við. Þeir krefjast þess að lífsafkoma þeirra og efnahagur þjóðarinnar sé ekki byggður á „slumpi“.  Hér þarf Hafrannsóknastofnunin að gera hreint fyrir sínum dyrum, skoða gögn og mæliaðferðir og fullvissa sig um að tekið hafi verið tillit til breyttra veiðiaðferða til dæmis þegar bannað var að nota stærri möskva en 8 tommur.  Svo mikið er frávikið frá meðaltali að gagnrýni verður ekki afgreidd með því að hér sé á ferðinni vísindaleg niðurstaða studd bestu þekkingu sem völ er á.   Þá er einnig rétt að benda á að það munar um hvert tonnið þegar úthlutun er komin niður í 130 þús. tonn.


Er nema von að menn efist?

Hér eru aðeins nefnt eitt fjölmargra dæma sem grafið hafa undan trúverðugleika Hafrannsóknastofnunarinnar hjá þeim sem nú fagna ákvörðun sjávarútvegsráðherra um hækkun aflamarks í þorski um 30 þús. tonn. Þessir aðilar hafa gríðarlega þekkingu á lífríki sjávar sem því miður hefur nánast ekkert rými fengið innan veggja Hafrannsóknastofnunarinnar.

Er nema von að menn efist um áreiðanleika þess sem kemur frá stofnuninni? Efist um aðrar mælingar eins og að stofnunin meti nýliðun lélega ár eftir ár sem kemur hvorki fram í fækkun skyndilokana né stærðarsamsetningu afla og afli á hvert bjóð fari margoft á ári yfir 400 kg, ár eftir ár.

Það er full ástæða til gagnrýni.


Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

 


 

 

 

efnisyfirlit síðunnar

...