Fyrningarleið - hvað á að gera við skuldirnar? - Landssamband smábátaeigenda

Fyrningarleið - hvað á að gera við skuldirnar?Sægreifar dagsins í dag bæði stórir og smáir byggja rekstur útgerða á rétti sínum til að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar - fiskistofnana.  Flestir þeirra hafa greitt fyrrverandi sægreifum fyrir þessi réttindi sem ríkissjóður hefur svo fengið tekjur af í formi skatta.

Þeir stjórnmálaflokkar sem nú mynda ríkisstjórn hyggjast breyta þessu umhverfi á þann hátt að árlega verður veiðiréttur fyrndur og úthlutað aftur gegn gjaldi í ríkissjóð.  Tekjur af þessu eiga einkum að renna til sveitarfélaga.

 

Keypti þorskkvóta fyrir 105 milljónir                                                                           

Fyrr í dag hafði samband við mig félagsmaður og spurði mig um sjávarútvegsstefnu stjórnmálaflokkanna.  Þegar búið var að fara í gegnum þær greindi hann mér frá því að hann hefði á árinu 2006 staðið frammi fyrir því að selja kvótann og hætta eða að kaupa sér meiri veiðiheimildir.  Áður en ákvörðun var tekin sagðist hann hafa velt fyrir sér framtíðinni með báðar leiðir í huga.  Freistandi hefði verið að selja og hasla sér völl á nýju sviði.  Það hefði hins vegar orðið ofan á að bæta við veiðiheimildirnar og tryggja þannig fyrirtækið betur til framtíðar. 

Eftir að viðskiptabanki hans hafði yfirfarið ársreikninga og rekstur útgerðarinnar sagðist hann tilbúinn til að aðstoða við kvótakaupin.  Keypt voru 30 tonn af þorski, af útgerðaraðila sem stóð á svipuðum tímamótum, á 105 milljónir.   Sægreifinn var sáttur við kaupin en fyrrverandi sægreifi virtist ráðvilltur. 

Kannski spyrð þú nú lesandi góður:  „Hvernig í ósköpunum datt sægreifanum í hug að kaupa 30 tonn á 105 milljónir?“

Svar: 

¨    hann hefur í þrjá áratugi unnið við að draga fisk úr sjó og getur ekki hugsað sér annað starf

¨    hann getur ekki hugsað sér að yfirgefa og eiga ekki afturkvæmt í sitt samfélag, vill áfram leggja sitt að mörkum í sinni heimabyggð

¨    hann brást við þorskskerðingu með fyrrgreindri fjárfestingu

¨    hann áætlaði að aflaverðmæti þessara 30 tonna gæti orðið 15 milljónir ári með því að veiða 40 tonn af ýsu með

¨    hann var sannfærður um að útgerðin gæti tekið á sig skuldbindingarnar, ekki síst þegar gera mátti ráð fyrir áframhaldandi háu fiskverði, góðum aflabrögðum, auknum þorskkvóta og síðast en ekki síst að honum héldist á úrvals starfsfólki.

 

Sægreifinn lagður í einelti                                                                                          

Sá ágæti sægreifi sem hér er gerður að umtalsefni er einn fjölmargra sem nú er talað niður til með þeim áherslum að hann hafi eitthvað til saka unnið, jafnvel sé hreinn og klár glæpamaður eins og sumir orða það.  Auk þess að refsa með illu umtali skal hann dæmdur til að skila veiðiheimildum, sem hann er rétt búinn að kaupa, endurgjaldslaust til þjóðarinnar.  Þar með talið til þess sem hann greiddi 105 milljónir fyrir þremur árum.                                     

Ítrustu dómsorð eru 5% árlega eða 1,5 tonn af því sem hann keypti á fyrsta árinu, sem nú er gert að standa fyrir 10 milljóna skuldbindingu hjá mínum manni.

 

Setjið hugmyndir um fyrningarleið í nefnd                                                               

Í starfi mínu horfi ég til félagsmanna í Landssambandi smábátaeigenda.  Ég veit að fjölmörg dæmi eru um hliðstæður þess sem hér hefur verið sagt frá.  Eitthundrað og fimmmilljóna lán sem tekið var 2006 í yenum og frönkum stendur nú í rúmum 200 milljónum.  Það þarf ekki doktors- né mastergráðu til að sjá að framsett fyrningarleið getur engan veginn gengið upp öðruvísi en að valda þeim sem síst skyldi miklum skaða og atvinnu- og eignamissi.                        

Verði fyrningarstefna ríkisstjórnarflokkanna að lögum er þjóðarhag stefnt í voða því hún ræðst að undirstöðuatvinnuvegi Íslendinga.

Til þeirra sem málið varða bið ég þá vinsamlegast að setja hugmyndir sínar um fyrningarleið í nefnd og vinna málið betur.  Í þeirri vinnu á að kalla á hagsmunaaðila þar sem leitað verði að niðurstöðu sem efla mun helstu atvinnugrein Íslendinga, sjávarútveginn, enn frekar.

 

Afstaða Landssambands smábátaeigenda                                                                    

Að endingu birti ég ályktun aðalfundar LS frá 2005 og afstöðu félagsins til fyrningarleiðarinnar:

„21. aðalfundur LS krefst þess að stjórnvöld tryggi atvinnugreininni viðunandi framtíðarsýn og hafnar alfarið öllum hugmyndum um fyrningarleið.  Á undanförnum árum hafa smabátaeigendur gert sitt ítrasta til að laga sig að hinu efnahagslega umhverfi og því sjálfsagt að stjórnvöld taki tillit til þess.“

 

 

                                                                                          Örn Pálsson framkvæmdastjóri                                                                                     Landssambands smábátaeigenda

 

 

2 Athugasemdir

skil ekki hvað er verið að velta þessu rugli svona fyrir sér, þetta er ekki hægt það sér það hver einasti maður ekki bara þetta dæmi heldur hjá flestum sem eru í þessu og eiga ekki verkun sjálfir. að skulda 200.000.000 og ætla að veiða 70 tonn upp í það, það dugar ekki fyrir vöxtum, þetta er kerfi fyrir þá sem vilja vinna mirkranna á milli árum saman og sjá engan afrakstur nema það að fjarlægast fjölskyldu og vini og eldast hraðar takk takk hef reinslu af þessu

Ég var afar undrandi á þessari grein eftir Örn. Aldrei datt mér í hug að LS ætti eftir að setja fram slík sjónarmið.

Ég þekki mann sem fékk lánaðar 100 m.kr. í ísl. banka, lagði 10 til sjálfur og keypti síðan hlutabréf í íslensku bönkunum. Bankarnir voru síðan þjóðnýttir sl. haust af illri nauðsyn og allt tapaðist. Hvað á að gera fyrir þennan mann sem spilaði með þessum hætti í fjárhættuspili bankanna í græðgissamfélaginu sem nú er vonandi hrunið um alla eilífð?

Það er auðvitað öllum ljóst að kaup á kvóta á 3.500 kr. tonnið var ekkert annað en fjárhættuspil sem bankarnir öttum mönnum út í spila, enda kvótaverðið búið til af þeim til að hækka veðgetu fyrirtækjanna.

Verðmæti 30 tonna upp úr sjó getur aldrei orðið meira en 7-10 milljónir króna. Vextir af 105 milljónum kr. hafa verið þannig á Íslandi að aflaverðmætið gat ekki dugað fyrir vöxtunum, hvað þá til að hafa afkomu af veiðunum. Þess vegna var mun skárra að leigja kvóta. Vonandi hefur maðurinn ekki verið svo grunnhygginn að vera með aðrar ábyrgðir á þessu láni en veð í kvótanum. Bankinn hirðir því kvótann.

Fyrningarleiðin er eina færa leiðin út úr þessu rugli og óréttlæti. Menn munu smám saman þurfa að leiga stærri hluta veiðiheimilda af þjóðinni sem á fiskinn í sjónum. Sú leiga verður miklu lægri en vextirnir af lánum sem menn tóku til kvótakaupa. Sú leiga verður líka áreiðanlega aldrei hærri en smábátakarlarnir geta með góðu móti greitt og þeir munu smám saman ná öllum ýsu- og þorskkvótanum til sín frá togaraflotanum sem ekki getur keppt við þá. Bátaflotinn með kyrrstæðu veiðarfærin mun fara létt með að veiða allt það magn sem leyft verður að veiða af þessum tegundum hér við land. Það er því bjart framundan fyrir nýja og gamla félaga í LS.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...