Sagan endurtekur sig í Grundarfirði - Landssamband smábátaeigenda

Sagan endurtekur sig í Grundarfirði


Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins sl. laugardag

„að ísinn á norðurheimskautinu hefur þykknað og breiðst út tvo vetur í röð. Að auki bráðnaði hann lítið sumarið 2008. Vísindamenn telja að ef sumarið 2009 verður kalt megi gera ráð fyrir því að ísinn nái nokkurn veginn eðlilegri útbreiðslu á ný“.  http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item257890/

 

Þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að á árinu 2007 bráðnaði heimskautaísinn svo hratt að vísindamenn spáðu því hiklaust að „norðurheimskautið yrði íslaust eftir 10 til 15 ár“.

(Frétt mbl.is frá árinu 2007:

http://www.mbl.is/mm/frettir/taekni/2007/08/08/heimskautais_bradnar_hradar_en_spar_segja_til_um/).

 

Hvað sem öllum vangaveltum vísindamanna líður, ráku íbúar Grundafjarðar upp stór augu þegar þeir vöknuðu í gærmorgun.  Um nóttina höfðu heiftarleg ísaþök rekið inn í fjörðinn undan norðanbálinu sem staðið hefur undanfarna daga.

Til að finna sambærileg vandræði af „landsins forna fjanda" í Grundarfirði þarf að leita allt aftur til ársins 1859. Í bókinni „Saga Grundarfjarðar“ (http://www.gegnir.is/F?RN=684967175) er þess getið að það ár lokaði rekís frá Grænlandi firðinum með öllu í fleiri vikur.  Honum fylgdi hnausþykk ísþoka sem lá yfir stærstum hluta norðan- og vestanverðs Snæfellsness fram undir sumarmál. 

 

Ekki er síður athyglisvert að í bókinni er þess einnig getið að á árinu 1858 fylltist Grundarfjörður af síld og gátu íbúar gengið niður í fjöru og ausið henni á land að vild. 

 

Árið 2008 gerðist nákvæmlega það sama.  Flestir muna eflaust eftir því að stærstu síldveiðiskip landsmanna hreinlega mokuðu upp síld úr Grundarfirði, rétt fyrir framan fjörurnar.  Slíkur var atgangur fiskiskipanna að íbúar Grundarfjarðar höfðu vart svefnfrið fyrir skarkalanum.

 

Á www.hafro.is er að finna tilgátu haffræðinga stofnunarinnar um þessa uppákomu.  Tilgáta þeirra er sú að hið flókna straumkerfi Breiðafjarðar leiði undir ákveðnum kringumstæðum bæði uppsjávarstofna eins og síldina inn í Grundarfjörð sem og rekís (sem eins og annar hafís er aðeins að 1/10 ofansjávar).  Þar leiki Kirkjufellsröstin aðal hlutverkið.


Það má með sanni segja að sagan endurtaki sig.  Í tilfelli Grundarfjarðar á nákvæmlega 150 ára fresti.  

 

Picture 3.jpg

Svona var yfir að líta í Grundarfirði í gærmorgun, 31. mars.  Kirkjufell í baksýn. 

Mynd: Bergur Garðarsson 

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...