Umsögn Landssambands smábátaeigenda um stjórnarskrárfrumvarpið - Landssamband smábátaeigenda

Umsögn Landssambands smábátaeigenda um stjórnarskrárfrumvarpið


Af gefnu tilefni, vegna fréttar í Morgunblaðinu í dag, er umsögn LS um stjórnarskrárfrumvarpið birt hér í heilu lagi.
Í frétt Morgunblaðsins er vitnað til umsagnar LS með mjög villandi hætti.  

Umsögn LS:

20. mars 2008

Efni:            Umsögn Landssambands smábátaeigenda um frumvarp til stjórnskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum, 385. mál.

Landssamband smábátaeigenda (LS) gerir eftirfarandi athugasemdir við framkomið frumvarp og þá sérstaklega 1. grein þess:

1.  LS finnst mjög miður hversu knappan tíma það hefur til umsagnar um þetta mikilvæga mál.  Aðalfundur LS er haldinn í október ár hvert.  Því er ljóst að ekkert tækifæri gefst til að ræða frumvarpið innan félagsins, málefni sem varðar fyrirtækja- og atvinnurekstur um 700 útgerða og afkomu á þriðja þúsund fjölskyldna í landinu.

Umsögn þessi tekur mið af umræðum á stjórnarfundi félagsins sem haldinn var í dag, 20. mars 2009.

2.  LS telur brýnt að löggjafinn tryggi varanlega réttindi þeirra sem að framan er getið.  Fjöldi smábátaeigenda eru ungir menn og fjölskyldur sem fjárfest hafa í bátum, veiðiheimildum (atvinnuréttindum) og atvinnuhúsnæði.  Þeir hafa í flestum tilfellum lagt allt að veði til að þeim sé unnt að stunda sinn atvinnurekstur og hafa síður en svo verið að taka fé út úr atvinnugreininni til annarra fjárfestinga.  Þeir eru að auki nánast undantekningalaust á „landsbyggðinni”, sem öllum er svo annt um. 

Þetta hafa þeir gert í trausti þess að fjárfestingar þeirra sé til framtíðar.  Ekki er síður vert að hafa í huga að kaup þeirra á veiðiheimildum (atvinnuréttindum) byggja á þeirra eigin reynslu af ástandi fiskistofna við strendur landsins, sérstaklega þorskstofnsins.  Sú reynsla er ekki í neinu samræmi við endalaust svartsýnisraus Hafrannsóknastofnunarinnar.  Upp til hópa eru smábátaeigendur þeirrar bjargföstu sannfæringar að ástand þorskstofnsins sé mjög gott og betra en til mjög langs tíma.  Sú sannfæring nær nú langt út fyrir raðir smábátaeigenda.      

Frá því að hin gríðarlegu efnahagslegu áföll riðu yfir þjóðina í byrjun október 2008 hafa smábátaeigendur þurft að sitja undir því nánast daglega að  „innkalla beri kvótann (atvinnuréttinn - innskot undirritaðs) til ríkisins". 

Engin önnur atvinnugrein í landinu hefur þurft að þola jafn niðurlægjandi umræðu.  Umræðu sem einkennist af lýðskrumi og innantómum slagorðum. 

Í vikunni komu fram athyglisverðar upplýsingar um skuldastöðu íslenskra fyrirtækja í árslok 2007.  Þar var upplýst að íslensk fyrirtæki skulduðu í árslok 2007 um 15.685 milljarða króna.  Þar af voru skuldir sjávarútvegsins um 300 milljarðar, eða um 1,9% af heildarupphæðinni.  Þetta eru vissulega gríðarlegar skuldir fyrir sjávarútveginn, en af einhverjum óútskýrðum ástæðum hefur umræðan verið með þeim hætti að helst mætti skilja að skuldastaða hans ein og sér væri að sliga þjóðarbúið. 

Í ljósi þessara upplýsinga er með hreinum ólíkindum að krafan um „innköllun kvótans“ (atvinnuréttarins) yfirgnæfi umræðuna, í stað þess að snúast um þann atvinnurekstur sem skuldaði í árslok 2007 98,1% af heildarskuldum íslenskra fyrirtækja.  Hvergi örlar á kröfum um að sá atvinnurekstur verði „innkallaður“.

3.  Það vefst fyrir LS hver hugmyndafræðin er að baki 1. grein frumvarpsins og hvað hún þýðir í raun og framkvæmd.  LS telur að álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um íslenska fiskveiðikerfið liggi amk að hluta til grundvallar.  Álit Mannréttindanefndarinnar hefur reynst óþrjótandi uppspretta digurbarkalegra upphrópana andstæðinga kerfisins. 

Á fundi stjórnar LS hinn 19. mars 2008 samþykkti hún eftirfarandi:

„Fundur stjórnar LS, haldinn 7. mars 2008, telur fulla ástæðu til að taka álit Mann-réttindanefndar Sameinuðu þjóðanna alvarlega og hvetur stjórnvöld til að svara hið allra fyrsta áliti nefnarinnar varðandi íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið.

Það er landsmönnum og sérstaklega þeim sem starfa við fiskveiðarnar fyrir bestu að óvissu verði eytt um fyrirkomulag þessara mála í framtíðinni.“

Það skal látið liggja milli hluta hvort þessu kalli LS var hlýtt, en síðla sama árs féll úrskurður Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Björns Guðna Guðjónssonar varðandi veiðar á grásleppu í netlögum sjávarjarðar. 

Í báðum tilfellum fóru menn til veiða án þess að hafa til þess veiðileyfi frá hinu opinbera.  Málin eru því í flestu sambærileg.  LS telur rök hníga að því að mál Björns Guðna hafi verið líklegra til vinnings en hitt, þar sem grásleppa var/er ekki kvótabundin. 

Engu að síður var úrskurður Mannréttindadómstóls Evrópu á þann veg að hann sneri fullkomlega á haus áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. 

LS er því spurn:  Hvort vegur þyngra að áliti íslensku löggjafasamkomunnar: álit nefndar eða úrskurður dómstóls?   

4.  Í fyrstu setningu frumvarpsins er talað um að náttúruauðlindir skuli vera þjóðareign.  LS er þeirrar skoðunar að með því að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrá er óhjákvæmilegt að setja „glugga" á fiskveiðikerfið þess eðlis að menn geti hafið fiskveiðar á þeim forsendunum (sameiginleg eign þjóðarinnar) - en ekki þeim að þurfa að kaupa veiðiréttinn (atvinnuréttinn) af öðrum.  Skiptir þar engu hvort um ræðir kerfi eins og nú er við lýði eða annað fyrirkomulag sem byggir á þeirri grundvallarforsendu að aðgangurinn að fiskveiðunum vera takmarkaður en ekki  „almennningur”.   

Landssambands smábátaeigenda hefur alla tíð talað fyrir frelsi til handfæraveiða og gerði það síðast á aðalfundi 2008 með eftirfarandi samþykkt:.

„Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda 2008

samþykkir að gefa handfæraveiðar frjálsar”.

Það er sannfæring LS að handfæraveiðar smábáta geti ekki undir nokkrum kringumstæðum skaðað eitt eða neitt.  Til þess eru bátarnir of smáir og of háðir yrti aðstæðum (veðri, straumum, birtu o.sv.frv.).  Á hinn bóginn geta þessar veiðar orðið lyftistöng mannlífs og vonar í fjölmörgum sjávarplássum Íslands.  Það er skoðun LS að ekki veiti af á þeim tímum sem nú ríkja.

5.  LS er þeirrar skoðunar að orðagjálfur um „sjálfbæra þróun" nefndarinnar sem var undir forystu Groe Harlem Bruntland og skilgreindi hugtakið (sjá greinagerð frumvarpsins) sé í besta falli óskhyggja.

Fyrir nokkum árum drap náttúran sjálf kúffiskstofninn í Bakkaflóa á einu bretti.  Var þar um að ræða einhverja sjálfbæra og meðvitaða ákvörðun náttúrunnar?

Þá er með öllu útilokað að vita hvaða þarfir komandi kynslóðir kunna að hafa.  Forfeður okkar virðast samkvæmt skráðum heimildum ekki hafa haft minnstu hugmynd um þarfir núlifandi kynslóða. 

6.  LS telur útilokað að tryggja „líffræðilega fjölbreytni" með lögum.

Á fundinum í dag, 20. mars 2009 var eftirfarandi samþykkt:

„Stjórnarfundur Landssambands smábátaeigenda, haldinn í Reykjavík 20. mars 2009 lýsir yfir fullri andstöðu við inngöngu í Evrópusambandið.

LS bendir á að til áratuga barðist íslenska þjóðin fyrir fullum yfirráðum yfir fiskveiðiauðlindunum.  Baráttan endaði með fullnaðarsigri 1975 með útfærslu landhelginnar í 200 sjómílur. 

Það er útilokað að þau yfirráð kæmu ósködduð út úr aðildaviðræðum við Evrópusambandið.  Ákvæði Rómarsáttmálans, hins upphaflega grundvölls Evrópusambandsin koma einfaldlega í veg fyrir það“.


Virðingarfyllst

f.h. Landssambands smábátaeigenda

Arthur Bogason

formaður

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...