Ályktun stjórnar Landssambands smábátaeigenda - Landssamband smábátaeigenda

Ályktun stjórnar Landssambands smábátaeigendaStjórnarfundur Landssambands smábátaeigenda, haldinn í Reykjavík 15. maí 2009 ályktar eftirfarandi:

 

Fundurinn mótmælir harðlega þeim áformum ríkisstjórnarinnar að ætla að innkalla veiðiheimildir.  Sú aðferð mun bitna hvað harðast á smábátaflotanum og er algert stílbrot við önnur atriði stjórnarsáttmálans um atvinnuuppbyggingu og skuldastöðu fyrirtækja. 

 

Í einföldustu mynd blasir við að tekjuhlið smábátaútgerðarinnar er skert á sama tíma og skuldirnar standa óbreyttar.  Smábátaeigendur hafa ekki á mörg mið að róa.  Þeir eru að mestu bundnir sínum heimabyggðum.

 

Langflestir smábátaeigenda eru sjálfir að róa bátum sínum.  Þeir hafa í mörgum tilfellum skuldsett sig við kaup á veiðiheimildum til að mæta þeim aflaskerðingum sem stjórnvöld hafa lagt á að tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar.  Að auki hafa margir þeirra skert laun sín til að byggja upp fyrirtækin. 

Þúsundir fjölskyldna í landinu treysta á rekstur þessara litlu fyrirtækja.  Fyrningaleið er ekki leið til sátta um sjávarútvegsmálin.  Þar verður annað að koma til og lýsir fundurinn yfir vilja félagsins til að leita slíkra leiða.

 

Fundurinn fagnar ýmsum þeim atriðum sem fram koma í stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnarinnar.  Allt frá stofnun Landssamband smábátaeigenda hefur félagið bent á mörg þeirra atriða sem þar er lögð sérstök áhersla á.  Þar á meðal eru umhverfisáhrif veiðarfæra, orkunotkun til fiskveiða og friðun strandsvæða fyrir botnvörpu- og dragnótaveiðum. 

 

Fundurinn fagnar áformum um frjálsræði til handfæraveiða. 

Á sama tíma mótmælir stjórn Landssambands smábátaeigenda þeirri aðferð að nota til þess byggðakvótann og skorar fundurinn á stjórnvöld að úthluta honum nú þegar.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...