Brýnar aðgerðir - stefnumál ríkisstjórnarflokkanna í sjávarútvegi - Landssamband smábátaeigenda

Brýnar aðgerðir - stefnumál ríkisstjórnarflokkanna í sjávarútvegiEftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 20. maí: 


Að völdum er sest ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.  Stefnumál þessa flokka í sjávarútvegsmálum í kosningabaráttunni voru skýr og hafa þau flest ratað inn í fiskveiðikafla í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Þar eru sex atriði sett undir fyrirsögnina „brýnar aðgerðir“. Hér mun ég fjalla um fjögur þeirra sem ég tel að falli nokkuð vel að samþykktum Landssambands smábátaeigenda undanfarin ár. Enn er á reiki hvernig nákvæm útfærsla verður og því tímabært að segja sína skoðun á því.

 

Útflutningsálag

 

        1.    „Knýja á um frekari fullvinnslu afla hérlendis með því m.a. að skoða hóflegt

             útflutningsálag á fisk og/eða að óunninn afli verði settur á innlendan markað.“

         

            Hér tel ég að við ættum ekki að fara aftur til þess kerfis sem var, þ.e. sjálfkrafa 10-15% 

         álags á heilan fisk til útflutnings.  Halda á frjálsræði í útflutningi en tengja álag við 

         söluverð og reyna þannig að ná fram auknum verðmætum. Það er ekki hægt að gefa sér 

         það fyrirfram að mestur hagnaður fáist með fullvinnslu hér innanlands. Erlendis gæti 

         verið markaður sem greiddi það hátt verð að meiri arður fengist þannig heldur en að 

         vinna aflann hér. Aftur á móti kæmi það mönnum í koll ef óunninn fiskur væri seldur á 

         sama verði og hér. Þá ætti álag að leggjast á og því hærra sem salan erlendis yrði lakari 

         miðað við verð á íslenskum fiskmörkuðum. Með þessari aðferð mundi myndast

            virkari samkeppni innanlandsmarkaðarins og þess erlenda.

         

 

Flutningur aflamarks milli ára   

         

        2.    „Takmarka framsal á aflaheimildum, auka veiðiskyldu og endurskoða tilfærslur á 

             heimildum milli ára.“

         

           Ekkert er heilagt í þessu efnum. LS lagðist t.d. gegn því að hækka prósentu á flutningi 

        milli ára úr 20% í 33% og benti m.a. á að það gæti orsakað tregðu á leigumarkaðinum 

        og hækkun á verði. Líklegt er að sú stífla sem nú er á leigumarkaðinum sé að hluta til 

        komin vegna þessara breytinga.

           Í umsögn við frumvarpið vildi LS gera grundvallarbreytingar. Prósentan yrði óbreytt, en 

        flutningsréttur næði einnig til þeirra sem leigðu til sín veiðiheimildir. Geymsluréttur yrði 

        því ekki einskorðaður við úthlutað aflamark á grundvelli aflahlutdeildar heldur mundi 

        miðast við samanlagt aflamark þ.e. samtölu af úthlutun, sérstakri úthlutun, færslu milli 

        ára og færslu milli skipa. 

         

           Dæmi: Bátur A fær 100 tonn í aflamark, geymsluréttur miðað við 20% er 20 tonn.  A

        leigir frá sér 40 tonn til B, en við það minnkar geymsluréttur hans niður í 12 tonn. B fær 

        hins vegar 8 tonna geymslurétt sem hann hefur ekki í dag. Samanlagður geymsluréttur 

        óbreyttur 20 tonn. 

         

 

Verndun grunnslóðar

         

        3.    „Vernda grunnslóð. Kannaðir verði möguleikar þess að veiðar afkastamikilla skipa á

             grunnslóð og inn á fjörðum verði takmarkaðar frá því sem nú er með það að

             markmiði að treysta grunnslóðina sem veiðislóð fyrir smærri báta og umhverfisvænni

             veiði.“

         

           LS hefur í fjölmörg ár ályktað í þessa veru og finnst stjórnvöld hingað til ekki hafa komið 

        nægjanlega til móts við samþykktir félagsins um takmarkanir á dragnóta- og trollveiðum 

        á grunnslóðinni. Með framangreint í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verður hægt að 

        líta til komandi mánaða með mikilli bjartsýni. Trillukarlar ættu að ná fram stefnumálum 

        sínum um að dragnótaveiðar innfjarða og í fjörunum við suðurströndina verði stöðvaðar. 

        Auk þess sem trollveiðar á grunnslóðinni verði alfarið bannaðar og engar undanþágur 

        veittar á grundvelli stærðar skipa. Það verði tegund veiðafærisins sem ráði nýtingu 

        grunnslóðarinnar.


 

Frjálsar handfæraveiðar á sumrin

 

        4.    „Heimila frjálsar handfæraveiðar smábáta yfir sumarmánuðina.“ 

         

           Allt frá stofnun LS hinn 5. desember 1985 hefur félagið ályktað um frjálsar handfæraveiðar. Með framangreindu hillir undir að svo verði. Stjórnvöld hafa hins vegar kynnt að til veiðanna verði ætlaður ákveðinn kvóti sem verði til með því að afnema byggðakvótann. Að mati LS á hins vegar að standa vörð um byggðakvótann.  

         Veiðimagn sem ætlað verður til frjálsra handfæraveiða á að flokkast sem sveigjanleiki í 

         kerfinu hvort heldur sem það verður minna eða meira en gert hafði verið ráð fyrir við 

         úthlutun hvers fiskveiðiárs. Á þann hátt yrðu „frjálsar handfæraveiðar smábáta yfir 

         sumarmánuðina“ viðbót við atvinnustarfsemi í sjávarbyggðum landsins.

 Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.  

 

efnisyfirlit síðunnar

...