Fyrningarleiðin og fjölskyldufyrirtæki á Snæfellsnesi - Landssamband smábátaeigenda

Fyrningarleiðin og fjölskyldufyrirtæki á Snæfellsnesi


Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins birtist eftirfarandi grein um fjölskyldufyrirtæki í sjávarútvegi á Snæfellsnesi.  Þessi grein sýnir aðra mynd en þá sem hver af öðrum dregur upp af þeim sem veiða og vinna fisk á Íslandi.  Þar er helst að skilja að þeir sem eru að nýta aflaheimildir landsmanna flatmagi upp til hópa í sólinni erlendis.  Fátt er fjær sanni.  Greinin bar yfirskriftina „Sjávarútvegur í ólgusjó“:

„Umræðan um sjávarútvegsfyrirtækin í landinu er verulega undarleg um þessar mundir að okkar mati. Talað er um sjávarútvegsfyrirtæki sem einsleitan hóp fyrirtækja og rekstur og aðgerðir fárra fyrirtækja heimfærð uppá allan fjöldann.

Við erum 3. og 4. kynslóð sjómannsfjölskyldu í Rifi og rekum þar útgerð og fiskvinnslu. Fyrir 15 árum stofnuðum við ferskfiskvinnslu sem hefur vaxið og dafnað og gengið vel að markaðsetja vörur sínar erlendis. Til að fyrirtækið gæti vaxið og boðið uppá stöðugleika í framboði hefur það smá saman keypt veiðiheimildir og báta með því að skuldsetja sig. Lánastofnanir hafa lánað til slíkra kaupa og skattayfirvöld viðurkennt eignfærslu veiðiheimildanna.  Við teljum okkur heiðarlegt fólk sem höfum ætíð unnið eftir þeim lögum og reglum sem gilt hafa í landinu. Við höfum kappkostað að byggja upp fyrirtækið, okkur, starfsfólki okkar og byggðarlaginu til hagsbótar.

Okkar saga er mjög svipuð sögu meirihluta sjávarútvegsfyrirtækja í kringum okkur á Snæfellsnesi og einnig víðar á landinu. Okkar réttlætiskennd er því verulega misboðið að hlusta á umræðu um að öll sjávarútvegsfyrirtæki séu sögð hafa braskað með veiðiheimildir, hlutabréf og fleira sem mjög margir tóku ekki þátt í.

Dæmi um rangfærslur

Í kastljósþætti hinn 13.maí  setur hagfræðiprófessorinn Þórólfur Matthíasson fram nokkur atriði sem við teljum ekki rétt að alhæfa um.

Í fyrsta lagi talar hann um að framlegð í útgerð megi reikna sem leiguverðið 170 kr.  Sá kvóti sem er á leigumarkaði er einungis lítið brot af heildarkvótanum og er því jaðarkvóti þ.e. þau umfram tonn sem sumir geta ekki nýtt sér en aðrir hafa hag af því að bæta við sig bæði til að ná stærðarhagkvæmni og einnig vegna veiða á öðrum tegundum.  Það er því ekki rétt að nota leiguverð sem viðmið á framlegð í útgerð.

Í öðru lagi talar hann um að sjávarútvegurinn sé svo skuldsettur vegna rangra ákvarðana stjórnenda. Í okkar tilfelli þá getum við ekki litið á það sem rangar ákvarðanir að hafa fjárfest í veiðiheimildum sl. ár. Við hefðum ekki getað eflt fyrirtækið án þeirra og 4. kynslóðin væri líklega ekki starfandi í fyrirtækinu ef það hefði ekki verið gert.

Í þriðja lagi talar hann um rangar ákvarðanir stjórnenda í veðmálum um gengi íslensku krónunar. Við viljum minna á, að á góðæris árunum þegar krónan var sem sterkust og útflutningur lap dauðann úr skel voru það einmitt gengisvarnir sem skiluðu fyrirtækjunum réttu megin við núllið.  Sem betur fer höfðu stjórnendur í sjávarútvegi trú á íslensku efnahagslífi og vörðu sig gegn gengissveiflum. Það voru ekki þeir sem tóku stöður á móti krónunni, sem átti þátt í að fella hana með tilheyrandi afleiðingum fyrir alla í landinu.

Breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu

Mikill ágreiningur hefur verið um fiskveiðistjórnunarkerfið í mörg ár og löngu tímabært að breyta því til að ná um það meiri sátt.  Útgerðarmenn hafa setið undir ámælum og eru sakaðir um að arðræna þjóðina. En slík ámæli eru ekki réttlætanleg gagnvart þeim sem aldrei hafa leigt né selt frá sér kíló.  Heldur einungis hugsað um að veiða og vinna á sem hagkvæmastan hátt en það á einmitt við um flesta þá sem starfa í greininni í dag.  Breytingar hefði átt að gera fyrir mörgum árum eins og að auka veiðiskyldu, takmarka framsal og síðast en ekki síst skattleggja leigu- og sölutekjur af kvóta.

Núverandi stjórnvöld hafa boðað þá leið að innkalla veiðiheimildir frá og með kvótaárinu 2010/2011. Verði það gert án þess að fyrir komi bætur mun þessi aðgerð bitna harðast á þeim sem keypt hafa veiðiheimildir sl. 5-6 ár, nýliðunum í greininni sem hafa ekkert annað gert en fylgja leikreglunum til að byggja upp sinn rekstur.  Samt eru þessar breytingar m.a. sagðar gerðar til auðvelda nýliðun í greininni.  Fyrir okkur eru það algjör öfugmæli. Við teljum að hægt sé að gera breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og ná meiri sátt um það án þess að fara í slíkar harkalegar breytingar. Við treystum því að stjórnvöld standi við orð sín um samráð við hagsmunaaðila í greininni um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Lokaorð

Alhæfingar og rangfærslur af öllu tagi eru mjög slæmar í jafn mikilvægri umræðu og  um sjávarútveg. Við viljum því skora á fjölmiðlafólk, stjórnmálamenn og aðra sem eru að fjalla um þessi mál að kynna sér betur fjölbreytileika íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, sögu þeirra og þann veruleika sem þau búa við.

Kristinn Jón Friðþjófsson

Þorbjörg Alexandersdóttir

Erla Kristinsdóttir

Halldór Kristinsson

Alexander Fr. Kristinsson


Höfundar reka útgerð og fiskvinnslu í Rifi á Snæfellsnesi

Picture 5.png

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...