Opið bréf til Seðlabankastjóra Íslands - Landssamband smábátaeigenda

Opið bréf til Seðlabankastjóra Íslands


Hinn 19. apríl sl skrifaði Arthur Bogason, formaður LS, Seðlabankastjóra Íslands eftirfarandi opið bréf í Morgunblaðinu:

„HR. SVEIN Harald Øygard

Þær efnahagslegu hremmingar sem íslensk þjóð glímir við eru tröllslegar. Tugþúsundir fjölskyldna og þúsundir fyrirtækjaeigenda lifa í ótta og óvissu um framtíðina. Þrátt fyrir að sól hækki á lofti og frost í jörðu sígi undan ríkir hjá þeim vetrarmyrkur og gaddur.

Í samskiptum þínum við fjölmiðla hefur þú lagt mikla áherslu á atriði sem ég er þér hjartanlega sammála um að sé brýnast nú um stundir. Þetta verkefni er að styrkja íslensku krónuna. Samkvæmt lögum er hlutverk Seðlabanka Íslands að tryggja efnahagslegan stöðugleika í landinu.

Umbjóðendur mínir eru íslenskir smábátaeigendur. Undanfarin ár hafa þeir byggt upp fyrirtæki sín af miklum dugnaði og bjartsýni. Þeir hafa upplifað mikla fiskgengd á miðunum og gott verð á mörkuðum. Í þessari uppbyggingu hafa margir þeirra skuldsett sig, sérstaklega í erlendum gjaldmiðlum.

Undanfarnar vikur hafa þeir fylgst í forundran með því hvernig verðgildi íslensku krónunnar hefur hríðfallið. Aðföng og viðhald hækkar í réttu hlutfalli og til að bæta gráu ofan á svart hefur verð á þorski fallið eins og steinn.

Fyrir hönd umbjóðenda minna fer ég þess vinsamlegast á leit að þú útskýrir fyrir mér og umbjóðendum mínum hvað þú sem seðlabankastjóri hefur gert og hyggst gera til að styrkja gengi íslensku krónunnar.

Virðingarfyllst

Arthur Bogason“

Nú, rúmum tveimur vikum síðar hafa svör ekki borist.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...