Sandsílabanar - Landssamband smábátaeigenda

Sandsílabanar


Maður er nefndur Aðalsteinn Agnarsson, 58 ára, fæddur og uppalinn á Hjalteyri við Eyjafjörð.  Faðir hans, Agnar Þórisson ól hann upp á trillubátum, en Þórir, afi Aðalsteins var alinn m.a. upp á hákarlaskipum.

Aðalsteinn, eða Alli, var til fjölda ára einn af skakmönnum Íslands og reri m.a. frá Vestmannaeyjum.  Án þess að á nokkurn sé hallað er Alli án nokkurs vafa einn af bestu handfæramönnum landsins.  Hann hefur ekki sótt sjóinn til nokkurra ára, en hugurinn er þar enn.

Aðalsteinn kom við á skrifstofu LS fyrr í dag og skildi eftir sig eftirfarandi texta, undir fyrirsögninni „Sandsílabanar“:

„Sandsílið hrygnir í nóvember til desember á 50 metra dýpi.  Það límir eggin við sandbotn og þar þurfa þau að vera í 4 mánuði, eða fram í apríl til að klekjast út.

Snurvoðaflotinn dregur veiðarfæri sín yfir þessi svæði og losar eggin frá botninum svo þau farast.  Snurvoðin losar líka loðnueggin frá sandbotninum.  Þau lifa það ekki af.  Síðan kemur loðnuflotinn á vorin og skefur sandbotninn og gengur alveg frá sandsílaeggjunum.  Við skulum ekki tala um hvernig nótin leikur loðnueggin þegar loðnan er að hrygna.  

Í samtali við Val Bogason, fiskifræðing í Vestmannaeyjum sagðist hann hafa skoðað mikið í ýsumaga í mars 2009 og fundið sama og ekkert af sandsílaeggjum.  Ýsan er því saklaus.

Aðalsteinn Agnarsson“.

Við þetta er að bæta að á vef Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings er athyglisverð umfjöllun um málið.  Slóðin er:

http://esv.blog.is/blog/esv/entry/174583/

Sandeel2.jpg

Sandsíli
  
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...