Sjávarútvegurinn á pólitískum uppboðsmarkaði - grein eftir Ásgeir Valdimarsson - Landssamband smábátaeigenda

Sjávarútvegurinn á pólitískum uppboðsmarkaði - grein eftir Ásgeir Valdimarsson


Í Morgunblaðinu í morgun birtist eftirfarandi grein eftir Ásgeir Valdimarsson, útgerðarmann og sjómann:

„Það er með ólíkindum að sjávarútvegurinn skuli í hverjum kosningum lenda á einhverskonar pólitískum uppboðsmarkaði og fólk og fyrirtæki í þessari grein rökkuð niður í svaðið og virðist ekkert heilagt í þeim efnum.  Meira að segja er gengið svo langt að halda því fram að fiskveiðistjórnunarkerfið (kvótakerfið) og þá væntanlega þau fyrirtæki og það fólk sem eftir því hafa starfað, sé bæði upphaf og endir á bankahruninu.  Er ekki kominn tími til að menn hægi nú aðeins á sér í sinni örvæntingu og baráttu um að komast á þing.  

Ég ætla ekki að halda því fram að kvótakerfið sé fullkomið frekar en önnur mannanna verk en þetta er tæki til að stýra því að ekki sé veitt umfram ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar.  Þeir sem hæst gaspra um að kvótakerfið sé ónýtt stýrikerfi og ekki hafi tekist að byggja upp fiskistofnana með þessari stýringu segja í hinu orðinu að það sé nóg af fiski í sjónum og að auka megi til dæmis þorskkvótann um 100 þúsund tonn, (á þessu fiskveiði ári er heimilt að veiða 160 þúsund tonn).  Er þetta trúverðugur málfluttningur?
Þegar kvótakerfinu var komið á 1984 var talið að hrygningarstofn þorks væri um 141 þúsund tonn, nú mælist hann um 250 þúsund tonn.

Því er haldið fram að sjávarútvegurinn sé svo skuldugur að hann rísi vart undir því, en samt á að vera hægt að innkalla veiðihemildirnar og þessi sami sjávarútvegur á að hafa bolmagn til að leigja þær til sín aftur, plús það að borga skuldirnar.  Er þetta trúverðugur málfluttningur?
Það er óumdeilt að skuldir sjávarútvegsins eru umtalsverðar.  Í árslok 2007 voru þær um 300 milljarðar eða um 2% af heildarskuldum íslenskra fyrirtækja.  Skuldir sjávarútvegsins eru að mestu í erlendri mynt og hafa því hækkað eins og hjá öðrum, bæði einstaklingum og fyrirtækjum.

Þeir sem starfa í sjávarútvegi í dag hafa unnið samkvæmt þeim lögum og reglugerðum sem alþingi hefur sett.  Samkvæmt þeim hafa útgerðirnar verið að kaupa til sín varanlegar aflaheimildir (kvóta, nýtingarrétt) af þeim sem hafa hætt.  Er svo komið að yfir 90% af þeim fisktegundum sem upphaflega voru settar í kvóta, hafa verið keyptar.
Nú á að ráðast á þá sem eru starfandi í greininni í dag og hafa ætlað að gera það áfram, annars hefðu þeir ekki verið að tryggja sér þennann nýtingarrétt. Með því að kaupa kvóta ert þú ekkert að gera annað en að tryggja þér það að þú fáir að nýta ákveðinn hundraðshluta af því sem talið er óhætt að veiða.  
Það er á stefnuskrá  Samfylkingar og Vinstri grænna, að ég tali nú ekki um Frjálslynda flokkinn að innkalla kvótann eins og það er kallað og eru þeir svo almennilegir að ætla að gera þetta rólega eða á allt að 20 árum.  Það sem meira er, þeir tala eins og það sé alveg sjálfgefið að þeir sem eru að basla í þessu í dag munu gera það áfram, eða í það minnsta á meðan þeir eru að borga sínar skuldir.  Til hvers ættu þessi fyrirtæki að vera borga skuldir af  því sem  síðan verður tekið af þeim?
Er ekki gáfulegast að rétta þessum þjóðnýtingarflokkum bara lyklana strax, með þeim skuldum og skömmum sem þessari atvinnugrein fylgir (að þeirra eigin sögn)?  þá geta þeir væntanlega hafið hana aftur til vegs og virðingar, þeir kannski hætta þá að úthrópa hana og rakka niður í svaðið.
Ég hef verið með eigin útgerð síðastliðinn 24 ár og hafði hugsað mér að halda því áfram, svo framarlega að þessi rugl stefna vinstriflokkanna nái ekki fram að ganga. 

Ásgeir Valdimarsson útgerðarmaður og sjómaður
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...