Sjávarútvegurinn er traustsins verður - Landssamband smábátaeigenda

Sjávarútvegurinn er traustsins verðurStjórn Snæfells kom saman til fundar á Rifi nú nýverið og samþykkti eftirfarandi: 


„Sjávarútvegurinn hefur endurheimt forystusæti sitt sem undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar.  Íslendingar hafa sjaldan, eða aldrei, átt meira undir því að sjávarútvegurinn gangi vel.  Hrun fjármálakerfisins hefur leitt til þess að þjóðin setur nú allt sitt traust á að sjávarútvegurinn standist öll fárviðri og sé fær um að geta lagt sitt að mörkum við að sigla þjóðarskútunni í öruggt lægi. 

 

Stjórn Snæfells er þess fullviss að atvinnugreinin muni standa undir þeim væntingum sem til hennar eru gerðar.  Því er þó ekki að neita að staðan hefur oft verið auðveldari en nú.   Skuldir, sem að mestu eru tilkomnar vegna kaupa á veiðiheimildum, hafa hækkað gríðarlega, veiðiheimildir í þorski skertar um tugi prósenta og taka ekki mið af vexti og viðgangi stofnsins, auk þess sem alþjóðleg kreppa hefur leitt til verðlækkunar sjávarafurða á helstu mörkuðum.

 

Stjórn Snæfells mótmælir harðlega öllum hugmyndum ríkisstjórnarinnar um innköllun veiðiheimilda.   

Stjórn Snæfells skorar á stjórnvöld að styrkja íslenskan sjávarútveg og tryggja þannig viðunandi framtíðarsýn atvinnugreinarinnar. 

 

 

Rifi 8. maí 2009

Alexander Kristinsson formaður“

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...