Alþingi fjallar um frístunda- og handfæraveiðar - Landssamband smábátaeigenda

Alþingi fjallar um frístunda- og handfæraveiðar


Í meðförum Alþingis er nú frumvarp sjávarútvegsráðherra um frístundaveiðar og frjálsar handfæraveiðar.

Frumvarpið má sjá hér:

http://www.althingi.is/altext/137/s/0034.html

Landssamband smábátaeigenda hefur sent inn eftirfarandi umsögn um frumvarpið:

Landssamband smábátaeigenda (LS) lýsir ánægju með framkomið frumvarp um aukið frjálsræði til handfæraveiða.  Ályktanir aðalfunda LS allt frá stofnun félagsins 1985 hafa beinst í þessa átt.  Aðalfundur LS 2008 samþykkti eftirfarandi:

„ …að gefa handfæraveiðar frjálsar”. 

LS gerir sér fulla grein fyrir því hversu vandasamt það er að koma á slíku fyrirkomulagi og borin von að það verði gert svo öllum líki.  Hvað sem því líður er óumdeilt að handfæraveiðar eru umhverfisvænar og mannaflsfrekar, atriði sem fljúga hátt í umræðunni nú um stundir.

LS gerir eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið:

A.  Frístundaveiðar

3. ml. 6. mgr. 2. gr. orðist svo:                                                                           

„Þó er Fiskistofu heimilt að veita bátum tímabundin leyfi til frístundaveiða á tímabilinu 1. maí - 31. ágúst.“

Skýringar:  

Dæmi eru um að eigendur báta með veiðileyfi í atvinnuskyni hafi lagt í umtalsverðan kostnað í því skyni að bjóða upp á þjónustu við ferðamenn hluta úr ári.  Tilgangurinn er að bæta upp að einhverju leyti hinn gríðarlega niðurskurð þorskveiðiheimilda.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að hefji aðili umrædda þjónustu 1. maí á hann ekki afturkvæmt til veiða í atvinnuskyni fyrr en að loknu fiskveiðiárinu 31. ágúst.

Þetta ákvæði frumvarpsins mun fæla áhugasama aðila frá hinni nýju atvinnugrein í ferðaþjónustu.

B.  Strandveiðar - ákvæði til bráðabirgða I.

1.  2. mgr. falli brott.

Skýringar:  LS telur að með þessari útfærslu sé veiðikerfið gert allt of flókið.  Réttara sé, ekki síst í ljósi þess að um ákvæði til bráðabirgða er að ræða, að taka í framhaldi mið af þeirri reynslu sem skapast í sumar.

Veigamestu rökin gegn þessu ákvæði eru öryggismál.  LS hefur til fjölda ára barist fyrir því að ákvæði um línuívilnun sé breytt á þann veg að mönnum sé ekki skylt að landa í sömu höfn og þeir róa frá.  Upp geta komið tilvik þar sem öruggast væri fyrir skipstjórnendur vegna t.d. versnandi veðurs eða bilana að taka höfn utan síns svæðis, en þar má hann samkvæmt frumvarpinu ekki landa afla á. 

LS skorar á stjórnvöld að standa vörð um byggðakvótann og bendir á að 1.455 tonn eru aðeins 0,9% aukning við útgefnar aflaheimildir.                                  

Reglur um byggðakvóta eru strangar og þurfa þeir sem hann fá að uppfylla kostnaðarsöm skilyrði.  Skerðing hans mundi því lenda hastarlega á þessum aðilum og setja fjárfestingar þeirra og rekstur í uppnám, þar sem þeir hafa reiknað með óbreyttum reglum á yfirstandandi fiskveiðiári.

LS er þeirrar eindregnu skoðunar að aflinn í hinu nýja kerfi eigi ekki að hafa nein áhrif á aðrar veiðar fiskiskipaflotans.   

3.  Þrír síðustu ml. 3. mgr. falli brott.                                                                         

3. og 4. ml. orðist svo:  „Við útgáfu Fiskistofu á leyfi til fiskiskips samkvæmt þessari grein skal tilgreina eitt samfellt tímabil sem umsækjandi óskar eftir að leyfið gildi.  Skip sem slík leyfi fá er óheimilt að stunda aðrar veiðar á því tímabili sem veiðileyfið nær til“.  

Skýringar:  Með breytingunni yrði réttur þeirra sem nú hafa veiðileyfi í atvinnuskyni betur tryggður.  Ef þeir kjósa að nýta veiðiheimildir síðar á fiskveiðiárinu þá opnar breytingartillagan þann möguleika.

4.  1. tl. orðist svo:  Óheimilt er að stunda veiðar föstudaga og laugardaga.

Skýringar:  Miklar líkur eru á að afli sem er landað á föstudegi fari ekki í vinnslu fyrr en á mánudagsmorgni.  Þetta kemur niður á gæðum aflans og þar með verðmætum.

5.  2. tl. orðist svo:  „Aðeins er heimilt að fara í eina veiðiferð á hverjum sólarhring.  Miðað er við þann tíma er fiskiskip lætur úr höfn til veiða til þess er það kemur til hafnar aftur til löndunar“.

Skýringar:  Með því að takmarka hverja veiðiferð við 12 klukkustundir er mönnum gert mjög misjafnt undir höfði, hvort heldur landinu er skipt niður í svæði eður ei.  Mislangt er á mið, bátar ýmist hæggengir (5-8 sml á klst) eða hraðskreiðir (20-30 sml á klst). 

Rétt eins og varðandi landshlutaskiptinguna, mæla öryggismál mjög gegn þessari kvöð.  Versnandi veður og/eða bilanir geta hæglega leitt til vandræða og skapað hættu.

 6.  4. tl. verði breytt þannig að fyrsta setningin falli brott.

Skýringar:  Í einhverjum fjölda tilfella munu ýmist einn eða tveir menn verða í áhöfn.  Þessi kvöð skapar þeim mikið óhagræði. 

7.  5. tl.  orðist svo:  „Á hverju fiskiskipi er aðeins heimilt að draga 800 þorskígildi í hverri veiðiferð.

Skýringar:  Að uppistöðu er handfæraafli á Íslandsmiðum þorskur og ufsi.  Sáralítið veiðist af öðrum tegundum. 

Hvað ufsann varðar, var hann um 40% af handfæraaflanum á síðasta fiskveiðiári.  Frumvarpið gerir ráð fyrir 15% hlutfalli.  

Með því að miða aflann við þorskígildi eru fjölmörg vandamál leyst sem að óbreyttu munu rísa. 

--

Það er von LS að vel takist til með hið nýja handfærakerfi.  Handfæraveiðar hafa dregist gríðarlega saman frá því að dagakerfi smábáta var lagt af. 

Handfæraveiðar eru umhverfisvænar, bæði hvað varðar notkun veiðarfæra og orkueyðslu.  Þær eru mannaflsfrekar og oftar en ekki bundnar sinni heimabyggð. 

Það er og von LS að með því að opna þennan „glugga“ á fiskveiðikerfið muni skapast meiri sátt meðal þjóðarinnar. 

 

Virðingarfyllst

f.h. Landssambands smábátaeigenda

Arthur Bogason formaður

Örn Pálsson framkvæmdastjóri


7316.jpg

Færabátur
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...