Hafró og skötuselurinn - Landssamband smábátaeigenda

Hafró og skötuselurinn


Ýmislegt vekur athygli í skýrslum Hafrannsóknastofnunarinnar um nytjastofna sjávar og aflahorfur fyrir komandi fiskveiðiár.  
Sú nýjasta gerir grein fyrir aflahorfum fyrir fiskveiðiárið 2009/2010.
Skýrslan í heild er hér:

http://www.hafro.is/Astand/2009/Astandsskyrsla_2009.pdf

Fyrir allmörgum árum bjó LS til töflu sem kölluð var „eltilíkanið“.  Hugmyndin byggði á því að tillaga stofnunarinnar um heildarafla (t.d. í þorski) væri á fyrsta ári, sama hvaða ár væri valið sem upphafsár, hárrétt.   Þannig væri hægt að framreikna tillögur stofnunarinar með því að draga frá eða bæta við tillögu næsta árs með tillliti til veiðinnar á fyrsta ári - og svo koll af kolli.

Dæmi: Tillaga uppá 10000 tonn í stofni X á fyrsta ári.  Veiðin var 11000 tonn sama ár.  Hafi tillaga stofnunarinnar verið skotheld, ætti hún því að leggja til 9000 tonn árið á eftir.  Hafi veiðin verið 9000 tonn hefði tillagan átt að vera 11000 tonn.

Hér er taflan um skötuselinn í nýjustu skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar:

Picture 9.png  
Stofnunin hóf að gefa ráðgjöf um skötusel fyrir fiskveiðiárið 2003/2004.  Tillaga hennar fyrir næsta fiskveiðiár (2009/2010) er því sú áttunda í röðinni.  
 
Frá 2003/2004 hefur stofnunin lagt til 12100 tonna veiði.  Á sama árabili var veiðin hins vegar 15750 tonn, eða 30% „framúrkeyrsla“.  Engu að síður leggur stofnunin til 2500 tonna afla fyrir næsta fiskveiðiár, eða jafn mikið því mesta sem hún hefur lagt til áður (sem var fyrir yfirstandandi fiskveiðiár).  

Sé „eltilíkansformúlunni“ beitt á töfluna fara hlutirnir fyrst að gerast athyglisverðir.
Byrjum á að skoða hvernig dæmið lítur út, sé reiknað frá fyrsta árinu sem Hafrannsóknastofnunin gaf út tillögu um hámarksafla í skötusel - og gengið út frá því að tillagan fyrir árið 2003/2004 hafi verið hárrétt:

Picture 15.png  

Samkvæmt þessu hefðu veiðimenn átt að tína til hátt í 46 þúsund tonn af veiddum skötusel, blása í hann lífi og skila í hafið.  Þetta er svo galið að frekari skoðun er tímaeyðsla.

En hvernig lítur þetta þá út, sé farið mun styttra aftur í tímann?  Lítum á:

Picture 17.png

Fyrir fiskveiðiárið 2007/2008 lagði stofnunin til 2200 tonna heildarafla í skötusel.  Þrátt fyrir að aflinn sama fiskveiðiár hafi verið 2921 tonn, eða 721 tonn umfram ráðgjöfina, lagði Hafrannsóknastofnunin til 2500 tonna veiði fyrir næsta fiskveiðiár - hærri en nokkru sinni.  

Ef eitthvað hefði verið að marka ráðgjöfina 2007/2008 hefði stofnunin átt að leggja til 1479 tonn á yfirstandandi fiskveiðiári.  Sú varð ekki raunin.  Trúlega mun veiðin verða á bilinu 2950-3000 tonn 2008/2009.  Hafi tillaga stofnunarinnar fyrir fiskveiðiárið 2007/2008 verið nálægt raunveruleikanum, hefði tillaga hennar verið 8 tonn fyrir næsta fiskveiðiár.  

Hafrannsóknastofnunin leggur til að veidd verði 2500 tonn 2009/2010, eða rúmlega 300 sinnum meira en átta tonnin framangreindu.

Hvernig sem á því stendur segir Hafrannsóknastofnunin í skýrslunni að skötuselsstofninn sé í „góðu ástandi“.
------
Útbreiðslusvæði skötusels hefur stækkað gríðarlega á stuttum tíma.  Þessi „rotta“ hafsins (víða kallaður öskuhaugafiskur) hefur valdið miklum vandræðum í Breiðafirði á yfirstandandi grásleppuvertíð.  Ekki er óalgengt að rauðmagar séu í maga þeirra.  Þeir rauðmagar púa ekki meir í hrogn og því augljóst hvað verður um þá hrognaklasa grásleppunnar.

Kvótar í skötusel voru settir þegar hann veiddist svo til eingöngu við suðurströndina.  

Réttast væri að taka hann út úr kvótakerfinu og hvetja veiðimenn til að veiða sem mest af honum.  

monkfish.jpg

Skötuselur.  Bragðast vel, en þar með er hrósinu lokið
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...