Þorskaflinn verði 200 þús. tonn - Landssamband smábátaeigenda

Þorskaflinn verði 200 þús. tonnStjórn Landssambands smábátaeigenda hefur yfirfarið ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar um heildarafla á næsta fiskveiðiári. 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jóni Bjarnasyni hafa nú verið kynntar tillögur LS.   Þar hvetur félagið ráðherra að heimila 200 þús. tonna þorskveiði.  LS mælir með minni ýsuafla en óbreyttum veiðiheimildum í steinbít, ufsa, löngu og keilu.   Auk þessa mælir LS með að aflatakmarkanir á skötusel verði afnumdar.

Tillögur LS gera því ráð fyrir að þorskafli verði aukinn um fjórðung, en ýsan minnkuð um 14%.

 

Í bréfi sem LS afhenti sjávarútvegsráðherra segir m.a.:

„Þorskur - stjórn LS bendir á að tillaga Hafrannsóknastofnunarinnar á yfirstandandi fiskveiðiári var 124 þúsund tonn.  Leyfður heildarafli var hins vegar 30% meiri - 160 þús. tonn.  Í ljósi þess vekur það athygli að stofnunin skuli gera tillögu um að hámarksafli verði nú aukinn um rúman fimmtung.  Stjórn LS telur að nú eins og undanfarin ár sé Hafrannsóknastofnunin að vanmeta stærð þorskstofnsins.  Ágæt þorskveiði mörg undanfarin ár rennir stoðum undir það. Þegar tekið er mið af línuveiðum hafa þær gengið afar vel um langt árabil.  Þess eru mýmörg dæmi að veiði á hvert bjóð sé margföld í samanburði við hvað þekktist þegar þorskstofninn var, samkvæmt gögnum Hafrannsóknastofnunarinnar, miklu stærri en nú.  Þetta er jafnvel að gerast hjá línuútgerðum sem reyna eftir fremsta megni að veiða aðrar tegundir. Reynsla langflestra innan smábátaútgerðarinnar - og fjölmargra utan hennar raða - er að staða þorskstofnsins sé óvanalega góð og vel hafi tekist til við uppbyggingu hans. 

Ýsa - smábátaeigendur greina smávægilega minnkun á ýsu, sem skýrir tillögu LS um að veiðiheimildir verði lækkaðar um 14%.  Stjórn LS álítur að veiðar dragnótabáta og togara við Suðurland séu varhugaverðar og beinir því til yðar að færa þær fjær landi.

 

Ufsi - ekkert lát er á mikilli ufsagengd.  Það kemur því verulega á óvart að Hafró skuli leggja til 50% minnkun.   Stjórn LS fullyrðir að engin innistæða sé fyrir slíkum niðurskurði og leggur til óbreyttan ufsaafla.

 

Steinbítur - góð veiði hefur verið á steinbít undanfarin ár.  Smábátaeigendur merkja ekki minnkandi afla á hverja einingu.  Þá er eftirtektarvert að steinbítur veiðist nú víðar heldur en undanfarin ár. 

 

Langa og keila - trillukarlar merkja ekki aukna útbreiðslu þessara tegunda, né heldur að þær veiðist í minna mæli.   Stjórn LS leggur til að heildarafli í löngu og keilu verði óbreyttur milli ára.“

 

 

 

 

 

 

 

 

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...