Strandveiðar - mikill atgangur á Fiskistofu - Landssamband smábátaeigenda

Strandveiðar - mikill atgangur á Fiskistofu 

Frá því reglugerð um strandveiðar var gefin út hefur umsóknum rignt inn til

Fiskistofu.  Stofan metur umsóknir og gefur út greiðsluseðil þegar ljóst er

að þær uppfylla þau skilyrði sem þarf til að fá strandveiðileyfi.

Leyfisgjald er kr. 17.500-.

 

Greiðsluseðill er sendur umsækjenda í pósti eða hann birtist í heimabanka.

Þegar greitt hefur verið sendir Fiskistofa veiðileyfi til viðkomandi, í

pósti, en ef óskað er eftir getur Fiskistofa sent leyfið í faxi til

bráðabirgða.

 

Rétt er að ítreka að óheimilt er að hefja strandveiðar fyrr en veiðileyfi

er komið um borð í bátinn.

 

 

 

Þeim sem eru með veiðileyfi í atvinnuskyni er bent á að það leyfi leggst í

dvala til 1. september um leið og greiðsluseðill er gefinn út.  Veiðileyfi

í atvinnuskyni - með krókaaflamarki eða aflamarki kviknar svo upp 1.

september nk.  Færsla veiðiheimilda milli ára verður með sama hætti og

verið hefur og tilfærsla króka- og aflamarks er hægt að framkvæma til 15.

september.

 

 

 

Í samtölum við starfsfólk Fiskistofu hefur  komið fram að mikill atgangur

hefur verið í kringum umsóknirnar.  Margir hafa kosið að koma með umsóknir

sínar til stofunnar, aðrir nota faxið eða póstinn.   Allt hefur þó gengið

vel og ljóst að fyrstu strandveiðileyfin verða gefin út í dag.  Þeir sem

þau fá geta hafið veiðar á nk. sunnudag, 28. júní.

 

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...