Aðalfundur Reykjaness - banna á botntrollsveiðar innan 12 sjómílna - Landssamband smábátaeigenda

Aðalfundur Reykjaness - banna á botntrollsveiðar innan 12 sjómílna


  

Aðalfundur Reykjaness var haldinn í Grindavík 25. september sl.   Fjölmenni var á fundinum, hátt í fimmtíu félagsmenn mættir.  Fundurinn samþykkti alls 12 tillögur sem beint er til 25. aðalfundar LS.  Umræður um þær voru miklar og ítarlegar og skoðanir oft á tíðum ólíkar.  Samstaða fundarmanna var þó góð og flestar tillögur samþykktar með öllum greiddum atkvæðum.

 

Fundurinn ítrekar fyrri samþykktir um lokun svæðis fyrir botntrolli vestur úr Sandgerði og suður af Grindavík.  Reykjanes vill banna veiðar með botntrolli innan 12 sjómílna, ennfremur að gulldepluveiðar verði bannaðar þar sem hún sé mikilvæg fæða fyrir ufsa og karfa.  Þá vill Reykjanes að loðnuveiðar verði takmarkaðar vegna mikilvægis hennar sem fæðu.

Sandgerdi.jpg

Reykjanes mótmælir öllum hugmyndum um afnám sjómannaafsláttar.  Skorað er á samgönguráðherra að breyta reglugerð um útivistartíma báta þar sem einn maður er um borð.

 

Á fundinum voru viðruð ýmis sjónarmið á strandveiðum.  Reykjanes vill að veiðitímabil strandveiða verði mismunandi, skipt í 2 mánuði t.d. suðursvæði væri í maí og júní, einnig að bátar sem leigt hafa frá sér kvóta fái ekki strandveiðileyfi.  Þá var samþykkt að óska eftir að LS standi fyrir nákvæmri úttekt á því hverjir nýttu sér strandveiðar, voru það t.d. nýliðar, frístundabændur, útgerðir smábáta með eða án kvóta.

 

Snarpar umræður urðu um ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og ákvörðun um heildarafla.  Fundurinn mótmælir harðlega niðurskurði á ýsu og skorar á sjávarútvegsráðherra að auka aflamark í henni nú þegar.

 

 

Stjórn Reykjaness er þannig skipuð:

   Halldór Ármannsson formaður

   Þorlákur Halldórsson gjaldkeri

   Jón Jóhannsson ritari

   Páll Jóhann Pálsson meðstjórnandi

   Eyþór Reynisson meðstjórnandi

 

 

 

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...