AIS tekur við af STK - breytingar á ferilvöktun og fjarskiptum - - Landssamband smábátaeigenda

AIS tekur við af STK - breytingar á ferilvöktun og fjarskiptum -


 

Í júni s.l. gaf  Samgönguráðuneytið út reglugerð (565/2009) um breytingar á reglugerð 672/2006 um Vaktstöð siglinga  og eftirlit með umferð skipa. Með gildistöku reglugerðarinnar geta skip tilkynnt staðsetningu sína til vaktstöðvarinnar með sjálfvirku auðkennikerfi skipa (AIS - Automatic Identification System) með sama hætti og með STK (Racal) tækjum. 

 

Samkvæmt reglugerðinni mun AIS kerfið taka að fullu við af STK kerfinu varðandi ferilvöktun skipa frá og með 1. janúar 2011.  Bátum sem eru 15 metrar og styttri mega vera búnir AIS-B tækjum, sem eru einfaldari og ódýrari gerð tækja, en Evrópusambandsreglur munu á næstu árum ná yfir báta yfir 15 m að lengd og þurfa þeir að vera búnir AIS-A tækjum.

 

Þann 1. júlí 2009 varð sú breyting á fjarskiptum Vaktstöðvar siglinga að að tekin voru upp til reynslu fjarskipti með stafrænu valkalli á metrabylgju (DSC-VHF).  Þessi aðgerð er  liður í breytingum á fjarskiptum og ferilvöktun skipa á hafsvæði A1.  Samkvæmt áðurnefndri reglugerðabreytingu verður stafrænt valkall á metrabylgju í fullri notkun frá 1. janúar 2010.

Eftir 1. janúar 2010 verður öllum nýsmíðuðum skipum gert að vera búin DSC-VHF búnaði og eftir 1. janúar 2011 verða öll skip, sem rekin eru í atvinnuskyni að vera búin DSC-VHF búnaði til fjarskipta á hafsvæði A1 ásamt AIS-A eða B tæki, háð stærð þeirra, til ferilvöktunar.

DSC-VHF tæki er búið neyðarhnappi sem kemur í stað neyðarhnappsins á núverandi STK-tæki en auk þess er DSC búnaðurinn með ýmsa möguleika í samskiptum og upplýsingagjöf umfram eldri VHF búnað. 

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...