Margir farnir að ókyrrast með að fá ekki ýsu - Landssamband smábátaeigenda

Margir farnir að ókyrrast með að fá ekki ýsuÞriðjungs niðurskurður veiðiheimilda í ýsu er farinn að segja til sín.  Nánast ómögulegt er að fá leigðan ýsukvóta öfugt við það sem hefur verið undanfarin ár þegar nægt framboð var. 

Afleiðingar þessa eru margvíslegar m.a. fyrir þá sem leigt hafa til sín ýsu á undanförnum árum.  Margir þeirra eru með nægar veiðiheimildir í þorski en standa nú frammi fyrir því að geta ekki nýtt sér þær þar sem ýsa fæst alltaf með þorskinum.  Einnig hefur þetta þær afleiðingar að framboð á línuveiddri ýsu minnkar og þar með útflutningsverðmæti þar sem minna fæst fyrir ýsu sem veidd er í troll.   Í þriðja lagi kemur þetta niður á þorskveiðunum, þær er ekki hægt að stunda með eins mikilli hagkvæmni og verið hefur.

LS hefur rætt þessi mál við sjávarútvegsráðuneytið og mun á næstu dögum, ef engar breytingar verða á, senda Jóni Bjarnasyni sjávarútvegs- og landbúðnaðarráðherra hugmyndir til umræðu um hvernig megi liðka til með viðskipti með veiðiheimildir á ýsu.  

 

Krókaaflamarksbátar leigðu til sín yfir fjögurþúsund tonn

Heildarýsuafli síðast liðins fiskveiðiárs varð rúm 89 þús. tonn.  Hlutur krókaaflamarks í þeirri tölu var 21 þús tonn eða 24% heildaraflans.  Hlutdeild þeirra í ýsunni er hins vegar 15%.   Mismunurinn hefur komið með því að leigja til sín úr aflamarkskerfinu og flutningi milli ára, en alls bættu þeir við sig á fimmtaþúsund tonna eða um rúman fjórðung sinna veiðiheimilda í ýsu á sl. fiskveiðiári með því að leigja veiðiheimildir af stærri skipum.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...