Nánar um lánamál - Landssamband smábátaeigenda

Nánar um lánamálFimmtudaginn 27. ágúst sl. var fjallað um þá fyrirætlan Landsbankans að í stað áframhaldandi frystingar lána væri mönnum boðið að greiða árlega 8% af upphaflegum höfuðstól uppreiknuðum eftir neysluverðsvísitölu.   Auk þessara tímabundnu breytinga á lánasamningi yrði vaxtaálag hækkað. 


LS hefur látið sérfræðing skoða þennan nýja valkost og meta hversu álitlegur hann er fyrir smábátaeigendur.  Upplýsingar sem hér koma fram taka mið af 18 milljón króna körfuláni sem tekið var snemma árs 2004 í evrum, frönkum og jenum.

Ef upphaflegur höfuðstóll lánsins (þ.e. kr. 18.000.000) er reiknaður upp m.v. vísitölu neysluverðs nú gefur það höfuðstól sem er kr. 27.137.000 (51% hækkun) og 8% árlega jafngildir því kr. 2.170.000  eða 1.085.000 hálfsárslega greiðslu til ráðstöfunar upp í vexti og afborganir.

Þegar upphaflegur höfuðstóll lánsins  er reiknaður upp nú m.v. gengi myntkörfunnar gefur það höfuðstól sem jafngildir kr. 37.597.000, (109% hækkun). Ef fylgt hefði verið reglulegri endurgreiðsluskrá lánsins ætti greiðsla á næsta hálfsárs gjalddaga að vera kr. 2.082.000 (þ.e. ef engin frysting hefði komið til). Tilboð Landsbankans felur því í sér að í stað frystingar er greiðslubyrðin lækkuð um helming í þessu tilviki.

Samhliða þessari skilmálabreytingu vill bankinn hækka vaxtaálag sitt úr 2,2% í 3,75%.  Ekki er annað að sjá en þetta sé heimilt skv. lánssamningnum en undarlegt þó að hér er um að ræða afturvirka hækkun sem vandséð er að samræmist ákvæðum um tilkynningaskyldu bankans um slíkar breytingar.


Til glöggvunar fyrir lesendur hefur verið tekið saman þróun sex gjaldmiðla sem allir koma við sögu í lánum smábátaeigenda.   Línuritið sýnir hækkun þeirra umfram hækkun á vísitölu neysluverðs.

Erl. myntir - vísitala.png 


Í samtölum við smábátaeigendur um skuldastöðu þeirra hefur komið fram að í áætlunum þeirra var gert ráð fyrir að gengissveiflur krónunnar yrðu innan viðráðanlegra marka en ekkert í líkingu það sem orðið hefur.

Skilmálabreyting Landsbankans sem hér var skoðuð er viðauki við lánssamninginn og tekið fram að  samningurinn haldist óbreyttur að öðru leyti.  Það er því ekki um ný lánsskjöl að ræða en slík breyting gæti haft hugsanlega áhrif á neytendarétt lántaka á síðari stigum.

LS mælir með að félagsmenn hafi í huga yfirlýsingu stjórnvalda um allt að 2ja ára frystingu lána án skilmálabreytinga þegar þeir taka afstöðu til svona skilmálabreytinga.   LS bendir á að leiðin sem hér er boðin felur í sér greiðslur sem falla ekki að þessum yfirlýsingum en eru engu að síður töluverð tímabundin eftirgjöf af greiðslubyrði samkvæmt endurgreiðsluskrá frumlánsins.


Vandræðagangur stjórnvalda og fjármálastofnana við að koma fram með samræmdar aðgerðir til aðstoðar rekstraraðilum ber þó að harma og óásættanlegt að ekki skuli allir sitja við sama borð þegar kemur til aðgerða sem félagsmönnum bjóðast. Það má ekki gleymast að sameign íslensku þjóðarinnar, þ.e. nytjastofnar á Íslandsmiðum, er enn á sínum stað og það krefst sjómanna með ómetanlega sérþekkingu til að gera úr henni verðmæti.   

 

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...