Stjórn LS fundaði með sjávarútvegsráðherra - Landssamband smábátaeigenda

Stjórn LS fundaði með sjávarútvegsráðherraÍ dag fundaði stjórn Landssambands smábátaeigenda með Jóni Bjarnasyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.  Fundarefnið var að upplýsa og ræða þá alvarlegu stöðu sem upp er komin varðandi veiðar krókaaflamarksbáta, sem eru hver af öðrum að stöðvast.  Komið er á daginn að þriðjungs niðurskurður veiðiheimilda á ýsu og þurrð á leigumarkaðinum er mörgum ofviða.   Það blasir því fátt annað við en að stöðva veiðar og segja upp fólki.

 

Ýsuveiði hefur verið ágæt að undanförnu og því gengur hratt á veiðiheimildirnar.  Flestar útgerðirnar eiga það þó sammerkt að eiga nægan þorsk og því ekki um annað að ræða en að spara ýsuna eins og framast er unnt til að hafa sem meðafla þegar þorskurinn nær yfirhöndinni á miðunum.

Á fundinum kom fram gríðarleg óánægja stjórnar LS með hversu lítið má veiða í þessum tegundum.  Þorsk- og ýsukvóti væri ekki í neinu samræmi við það sem kæmi fram í aflabrögðum.


Stjórn LS skoraði á ráðherra að auka nú þegar kvótana.pdf - fara með þorskinn í 200 þús. tonn og ýsuna í 80 þús. tonn.  Þá bentu stjórnarmenn á að með því að fallast á samþykkt aðalfundar um að gefa línuveiðar á ýsu frjálsar til áramóta.pdf væri hægt að afstýra því að binda þyrfti tugi báta og segja upp á annað hundrað sjómönnum.  Auk þess væri tryggt að hámarksverðmæti fengjust út úr ýsukvótanum.

 

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði stöðuna þrönga en í ljósi alvarleika málsins yrði að skoða allar leiðir.  Kæmi til auka úthlutunar yrði það ekki gert öðruvísi en í samráði við Hafrannsóknastofnunina.

 

 

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...