25. aðalfundur LS -setningarræða formanns - Landssamband smábátaeigenda

25. aðalfundur LS -setningarræða formanns


Í morgun hófst 25. aðalfundur Landssambands smábátaeigenda í Turninum í Kópavogi.  Um 100 manns voru við setninguna, kjörnir fulltrúar og gestir.  Auk formanns og framkvæmdastjóra LS ávarpaði hæstvirtur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason fundinn.  

Formaður LS setti fundinn og flutti eftirfarandi setningarræðu:

„Ágætu aðalfundarfulltrúar, hæstvirtur sjávarútvegsráðherra og aðrir góðir gestir!

Í setningarræðu minni fyrir ári, hér í þessu húsi, lét ég eftirfarandi orð falla:

„Uppi eru aðstæður á Íslandi sem engan óraði fyrir.  Uppi eru aðstæður sem kollvarpa öllum áætlunum og áformum.  Uppi eru aðstæður fáránleikans.

Á örskotsstund hefur tilvera okkar Íslendinga breyst. Á örskotsstund hefur íslenskt þjóðfélag hrunið í þeirri mynd sem við höfum þekkt“. 

Tilvitnun lýkur.

Ef eitthvað er, á þessi lýsing betur við í dag en þá.

Eitt er þó ljóst sem margsinnis kom fram á síðasta aðalfundi. Mikilvægi sjávarútvegsins fyrir þjóðarbúið er nú ljósara en hugsanlega nokkru sinni. 

Mér er minnisstætt samtal sem ég átti við háttsettan bankamann fyrir um þremur árum.  Hann var ekkert að skafa af hlutunum:  Þjóðarbúið gæti hæglega komist af án sjávarútvegsins.  Fjármálaútgerðinnni myndi lítið muna um að brúa bilið.  Þar lægi framtíðin!    

Þessi vitfirrta hugsun minnir óþægilega á þá framsetningu ættaðri ofan úr sjálfum Háskóla Íslands á því illræmda ári 2007, æðstu menntastofnun þjóðarinnar, að Íslendingar myndu hagnast mest á því að leggja af þorskveiðar til nokkurra ára.

Er nema von að þjóðin sé illa stödd. 

Er nema von að maður spyrji hvort þeim skatttekjum landsmanna sem varið var til að mennta þessa aðila hafi verið skynsamlega ráðstafað.  Hvað mig varðar, þá vil ég fá endurgreitt.

Í þessu samhengi hika ég ekkert við að setja fram eftirfarandi staðhæfingu:  

Íslenska þjóðin geldur ekkert dýrara verði en stærðfræðikukl Hafrannsóknastofnunar-innar.  Ég segi og stend við orðið kukl, því skoðun á gögnum stofnunarinnar framkallar þá birtingarmynd:

Í júní sl var birt á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda úttekt á ráðgjöf stofnunarinnar og veiði fiskiskipaflotans varðandi skötuselsstofninn.  Þessi framsetning vakti litla sem enga athygli fjölmiðla.

Stofnunin hóf að gefa ráðgjöf um skötusel fyrir fiskveiðiárið 2003/2004.

 

Til og með fiskveiðiárinu 2008/2009 lagði stofnunin til 12100 tonna veiði.  Á sama árabili var veiðin hins vegar 15750 tonn, eða 30% „framúrkeyrsla“.  Engu að síður leggur stofnunin til 2500 tonna afla fyrir nýbyrjað fiskveiðiár.

 

Sé gengið út frá því að tillagan fyrir árið 2003/2004 hafi verið rétt hefðu veiðimenn átt að tína til þúsundir tonna af veiddum skötusel, blása í hann lífi og skila í hafið.

 

Við skulum skoða þetta frá fiskveiðiárinu 2007/2008. Fyrir það ár lagði stofnunin til 2200 tonna heildarafla í skötusel.  Þrátt fyrir að aflinn sama fiskveiðiár væri 2926 tonn, eða 33% umfram ráðgjöf, lagði Hafrannsóknastofnunin til 2500 tonna veiði fyrir fiskveiðiárið 2008/2009, 12% hærri en árið áður.  

 

Ef eitthvað hefði verið að marka ráðgjöfina 2007/2008 hefði stofnunin átt að leggja til 1473 tonn á fiskveiðiárinu 2008/2009, en ekki 2500 tonn.  Veiðin varð hins vegar 3444 tonn.  Í raun hefði stofnunin því átt að leggja það til að veiðar á skötusel á fiskveiðiárinu 2009/2010 yrðu með öllu bannaðar.  Stofninn væri uppurinn.  En það gerði hún ekki.  Stofnunin lagði aftur til 2500 tonn og kvittaði í síðustu skýrslunni sinni fyrir ofveiðina allar götur frá árinu 2003 með því að skötuselsstofninn sé í „góðu ástandi“.

 

Nú kann einhver að halda að mér hafi tekist að finna sjaldgæfan fingurbrjót í skýrslum Hafrannsóknastofnunarinnar.  Því fer fjarri.  Ég skora á fjölmiðla og alla þá er láta sig þessi mál varða að lesa þær skýrslur sem stofnunin sendir frá sér.  Ekki bara fyrir skötusel.  Ekki bara fyrir steinbít.  Heldur allar tegundir sem stofnunin fjallar um í skýrslu sinni.

 

En hvernig má þetta vera?  Ég hef til fjölda ára haft á þessu einfalda skýringu og ekkert legið á henni: Dýrkun stjórnvalda og fjölmiðla á fræðimönnum og „vísindalegri nálgun“. 

Þessi fræðimanna- og vísindadýrkun nær ekki bara til valdhafa, sem framselja völd sín í hendur viðkomandi stofnana.  Fjölmiðlar virðast losti slegnir.  Raunveruleg gagnrýnin umfjöllun er úr sögunni. 

Þetta er svo þægilegt:  Mennirnir með skammstafanirnar fyrir aftan nöfnin sín hljóta að vita best.  Þið, ágætu aðalfundarfulltrúar eruð ómarktækir.  Þrátt fyrir að það séu þið sem yrkið miðin daglega og hafið best alla innsýn í ástand þeirra og breytingar sem stöðugt eiga sér stað í umhverfi hafsins eruð þið ekki marktækir. 

 

Ég spyr:  Hversu lengi ætlið þið að láta bjóða ykkur þetta?  Finnst ykkur ásættanlegt að öll ykkar reynsla og þekking sé lítilsvirt og smáð?  Það var dýrkun á svokölluðum fræðimönnum sem kom þjóðinni í þá ferlegu stöðu sem hún er í.  Þar lék hundslegur undirlægjuháttur fjölmiðla sitt hlutverk og hafi þeir mátulegar þakkir fyrir.

 

Það er löngu ljóst að stór hluti íslensku þjóðarinnar er ósátt við núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi.  Hvernig sem á því stendur hefur þetta ósætti ekki skilað sér í kosningum til Alþingis.  Engu að síður hafa núverandi stjórnarflokkar á stefnuskrá sinni að bæta úr þessu.  Hugmyndin er sú að innkalla veiðiheimildir, 5% á ári og að innköllunin hefjist 1. september 2010.  Þessi aðferð á að fullnægja réttlætinu.  Réttlæti hverra hefur hins vegar ekki verið tíundað. 

 

Ég ætla ekki að gera lítið úr gremju þeirra sem hafa fylgst með oflátungshætti þeirra sem hafa farið langt fram úr sjálfum sér innan sjávarútvegsins og hroka þeirra sem tala fyrir þeirra hönd. 

En gera þeir sem eru fullir þessarar gremju sér grein fyrir því að innan sjávarútvegsins eru fjölmörg lítil sjávarútvegsfyrirtæki, fjölskyldufyrirtæki, sem hafa aldrei gert annað en að nýta þær aflaheimildir sem þeim hefur verið úthlutað samkvæmt lögum og sum hver þeirra lagt allt að veði til að auka við sig á þvi sviði?

 

Ég tek dæmi:  Fyrirtæki í smábátaútgerð er með 100 tonna kvóta og skuldar 100 milljónir, eftir gengishrun krónunnar.  Hinn 1. september 2010, að óbreyttum aflaheimildum, mun fyrirtækið hafa 95 tonna kvóta en skulda um 105-110 milljónir.  

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er augljóslega vilji til að styrkja smábáta- og strandveiðar.  Ekki hvaflar að mér að gera þar lítið úr og handviss um að málinu fylgir góður hugur.  En ég spyr:  Hvernig mun framangreint smábátafyrirtæki eflast við það sem að framan er talið?  

Er líklegt að viðkomandi fyrirtæki hafi færst upp á „styrkleikalista“ viðskiptabankans? 

Og hitt, sem er ekki síður mikilvægt: er líklegt að viðkomandi einstaklingi eða fjölskyldu hafi aukist þróttur og þol í útgerðinni eftir að hafa verið tilkynnt um 5 tonna fyrninguna?  Spyr sá sem vill fá svör og það skjótt og vel.  Jafnframt er rétt að benda á að hugsanlega keypti hann dýrum dómum veiðiheimildir fyrir tveimur árum sem nú hafa með öllu gufað upp eftir niðurskurð þorskveiðiheimilda vegna veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunarinnar.

 

Með þessari lýsingu er ég ekki að lýsa stuðningi við núverandi fiskveiðkerfi eins og svo margir virðast halda.  Ég er einfaldlega að benda á þá stöðu sem fjölmörg smábátafyrirtæki, lítil fjölskyldufyrirtæki, hringinn í kring um landið, eru í.  Þessi fyrirtæki hljóta að eiga það skilið að fyrir þeim sé skýrt í hverju þetta réttlæti sé fólgið. 

 

Það er fullkominn ruddaskapur að tala um innköllun veiðiheimilda/atvinnuréttar eins og ég hef ætíð litið á kvótann, án þess að taka skuldir fyrirtækjanna og einstaklinganna þar inn í. Finnst talsmönnum fyrningarleiðarinnar það sjálfsagt að sjávarútvegsfyrirtækin, stór sem smá, séu skilin eftir með skuldirnar, skuldir sem breyttust í hrein og klár skrímsli við gengishrun krónunnar?

 

Í samstarfsyfirlýsingu núverandi stjórnarflokka stendur orðrétt:  „Markmið ríkisstjórnarinnar er að aðgerðir gagnvart öllum smærri og meðalstórum fyrirtækjum liggi fyrir í síðasta lagi í septemberlok“.  Ekki bólar á þessum aðgerðum enn.

 

Ég skora hér með á stjórnvöld að gera heildstæða grein fyrir því hvernig þau hyggjast útfæra svokallaða fyrningaleið þannig að smábátaútgerðin og strandveiðarnar standi eftir á styrkari fótum en áður.  Eða er það kannsi ætlunin að halda smábátaflotanum utan við fyrningaleiðina?

 

Í þessu sambandi hlýt ég að víkja að þeirri grafalvarlegu stöðu sem fjölmargar smábátaútgerðir eru að komast í eftir hinn hrikalega niðurskurð á veiðiheimildum í ýsu.  Margar þessara útgerða eru um það bil að binda báta sína og segja upp fjölda fólks.  Niðurskurðurinn í ýsunni er enn eitt dæmið um hina gríðarlegu gjá sem er á milli veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunarinnar og því sem þið upplifið á miðunum. 

 

Hér þarf sjávarútvegsráðherra að hafa skjótar hendur og ég brýni hann til dáða.  Ég minni á að samkvæmt lögum um Hafrannsóknastofnun á hún að vera ráðgefandi en ekki ráðandi

--- 

Landssamband smábátaeigenda hefur frá stofnun samþykkt ályktanir um frjálsræði til handfæraveiða.  Eftir 24 ára slag samþykkti aðalfundur LS 2008 eftirfarandi, orðrétt: 

 

„Að gefa handfæraveiðar frjálsar“. 

 

Þetta kalla ég að standa í lappirnar.  Eftir fjórðungsaldar slag um tilveru sína samþykktu smábátaeigendur tillögu sem er í fullu samræmi við það sem lagt var upp með á stofnfundi félagsins, sem krafðist “frjálsra veiða” fyrir smábáta. 

 

Þar sem ég og sjálfsagt flestir hér inni eru löngu fullsaddir af vondum og verri fréttum undanfarinna missera ætla ég að enda mál mitt með nokkrum orðum um hið nýja veiðikerfi, strandveiðikerfið.

 

Þegar við gengum af síðasta aðalfundi LS, hafandi meðal annars samþykkt frjálsar handfæraveiðar óraði engan fyrir því hver framvinda málsins yrði.  Ég fullyrði að samþykktin var gerð af óskhyggju frekar en raunsæi. 

 

Hvað sem því líður gerðist það rúmu hálfu ári síðar að stjórnvöld ákváðu að rifa glugga á kvótakerfinu og gera mönnum kleift að róa án þess að hafa keypt eða leigt aflaheimildir.  Þessi gluggi var öllum opinn.  Mikill meirihluti þeirra sem nýttu sér möguleikann voru trillukarlar með stórskertar aflaheimildir.  Lái þeim hver sem vill.  Frá því skerðingar á þorskveiðiheimildum hófust eru það smábátaeigendur sem hafa orðið fyrir mestum búsifjum. 

 

Einhver sagði að réttarkerfi vesturlanda væri sérstaklega hannað til að refsa þeim sem hnuplar brauðhleif í búð, en léti þann sem rændi heilum banka það eftir.

 

Strandveiðikerfið, eða handfærakerfið eins og ég tel réttnefni, er fagnaðarefni.  Ég skil fullkomlega gremju þeirra sem hafa nýverið keypt dýrum dómum veiðiheimildir aðila sem héldu bátunum og fóru á skak í sumar sem ekkert væri. 

 

Það samrýmist hins vegar illa okkar eigin málflutningi að tala um deyjandi sjávarbyggðir annars vegar og  kvarta yfir löndunarbið hins vegar. 

 

Landssamband smábátaeigenda fagnar að sjálfsögðu hinu nýja veiðikerfi þó svo ýmislegt megi betur fara í útfærslu þess.  Ég hvet sjávarútvegsráðherra til að festa þetta kerfi í lögum hið allra fyrsta.      

----!

Það var táknrænt stórviðrið sem gekk yfir landið um síðustu helgi, réttu ári eftir fárviðrið sem feykti íslensku efnahagslífi á hliðina.  Hið fyrrnefnda er horfið út í buskann, en hið síðarnefnda er síður en svo gengið niður.  Enn ríkir mikil óvissa um framvindu mála. 

 

En það dugar ekki að leggja árar í bát.  Við eigum engan annan kost en að halda ótrauð áfram og verum óþreytandi við að minna ráðamenn þjóðarinnar á gildi smábátaútgerðarinnar og hvernig hún getur lagt af mörkunum í þeim aðstæðum sem uppi eru.

 

Nú þarf að skapa störf;  smábátaútgerðin er mannaflsfrek.

Nú þarf að spara gjaldeyri og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda - orkunotkun smábátaútgerðarinnar er brot af því sem gerist hjá stóru skipunum.

Og nú þarf að auka virði sjávaraflans - það er best gert með eflingu smábátaútgerðarinnar.

 

Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda er ykkar sameiginlegi vettvangur og ég brýni ykkur til láta hvergi deigan síga.  Því segi ég við ykkur:  Róið!“


Arthur Bogason

 

    
 

efnisyfirlit síðunnar

...