Brýnar aðgerðir í sjávarútvegi - Landssamband smábátaeigenda

Brýnar aðgerðir í sjávarútvegiJón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ávarpaði aðalfund Samtaka fiskvinnslustöðva 25. september sl.

Í einum kafla ræðu sinnar vék ráðherrann að stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um sjávarútvegsmál.  Samkvæmt henni væri honum falin nokkur brýn verkefni, þau helstu eru:

„Knýja á um frekari fullvinnslu afla hérlendis með því m.a. að skoða hóflegt útflutningsálag á fisk og/eða að óunninn afli verði settur á innlendan markað.

Takmarka framsal á aflaheimildum, auka veiðiskyldu og endurskoða tilfærslur á heimildum milli ára.

Vernda grunnslóð. Kannaðir verði möguleikar þess að veiðar afkastamikilla skipa á grunnslóð og inn á fjörðum verði takmarkaðar frá því sem nú er með það að markmiði að treysta grunnslóðina sem veiðislóð fyrir smærri báta og umhverfisvænni veiði.

Skipa ráðgefandi hópa útgerðarmanna og sjómanna varðandi veiðiráðgjöf og nýtingu sjávarauðlinda og ástand í lífríki sjávar.

Heimila frjálsar handfæraveiðar smábáta yfir sumarmánuðina.“

 

Jón sagði meirihluta þessara verkefna vera komin í gang og sagði síðan:

„Ég er að láta skoða sérstaklega mál er tengjast verndun á grunnslóð í Skagafirði, línuívilnun og frekari þróun þess kerfis, stjórnun skötuselsveiða og veiða á úthafsrækju og sérstök tæknileg atriði varðandi ýsuveiðar svo eitthvað sé nefnt.“    

Um strandveiðar sagði ráðherra eftirfarandi:

„Þær gengu mjög vel að mínu mati.  Nú verður farið yfir reynsluna af þeim og síðan lagt fram nýtt frumvarp um þær á yfirstandandi þingi.  Mín skoðun er að menn verða að sætta sig við að í fiskveiðistjórnunarkerfinu verði að vera pláss fyrir sem flesta.  Þess vegna er þessi möguleiki sem strandveiðarnar gefa nauðsynlegur.  Standveiðarnar eru, hvað sem menn segja, þáttur í því að þjóðin nái betur sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið.“ sagði Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.


Sjá nánar:

http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/radherra/raedur_JB//nr/9789

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...