Klettur - hafnar alfarið aðild að Evrópusambandinu - Landssamband smábátaeigenda

Klettur - hafnar alfarið aðild að Evrópusambandinu


 

Aðalfundur KLETTS, svæðisfélag smábátaeigenda Ólafsfjörður - Tjörnes, var haldinn á Árskógssandi 3. október sl.  Félagsmenn fjölmenntu til fundarins og voru óragir við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við þau málefni sem á dagskrá voru.  Fundurinn sendi frá sér fjölmargar ályktanir sem teknar verða fyrir á 25. aðalfundi Landssambands smábátaeigenda nk. fimmtudag og föstudag, 15. og 16. október.

 

Meðal ályktana sem Klettur samþykkti voru:

 

Þorskkvóti

Klettur skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að auka þorskkvótann nú þegar um 70 þús. tonn.

 

Ýsukvóti-veiðar

Klettur hvetur Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að bregðast strax við því ófremdarástandi sem upp er komið í ýsuveiðum.

Í nokkra mánuði hefur ekki verið hægt að fá leigðar veiðiheimildir í ýsu. Afleiðingar þess eru að fjöldi báta verður að stöðva veiðar á næstu dögum án þess að vera komnir í kvótaþurrð í öðrum tegundum.  Við það minnkar framboð á línuveiddri ýsu, verðmæti lækkar, auk þess sem sjómenn og beitningafólk missir atvinnuna.   

Klettur skorar á ráðherra að koma í veg fyrir þessi vandamál með því að setja í reglugerð að ýsa veidd á línu fram til næstu áramóta reiknist ekki til afla- eða krókaaflamarks hvers báts þar sem viðmiðunin verði 30% af ýsuafla viðkomandi á sl. fiskveiðiári.

 

Strandveiðar

Klettur styður áframhaldandi strandveiðar.

Brýnt er að sníða reglur um veiðitíma og hámarksafla td. með ákveðið mörgum dögum á mánuði og þorskígildum í hámarksafla, að staðháttum á hverju svæði, t.d. á svæði B getur verið mjög erfitt að komast í handfærafisk nema með löngum siglingum á og af miðunum.

 

Fyrning veiðiheimilda

Klettur lýsir sig alfarið mótfallin fyrningu veiðiheimilda.

Sjávarútvegurinn einn atvinnugreina býr við sérstakt auðlindagjald, einnig hefur sjávarútvegurinn lagt í mikinn kostnað við hagræðingu innan greinarinnar og vandséð hvernig fyrning gæfi þjóðarbúinu aukinn arð af auðlindinni.

 

DSC03226.jpg

Evrópusambandið

Klettur hafnar alfarið aðild að Evrópusambandinu.

 

Byggðakvóti

Klettur skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að standa vörð um byggðakvótann, jafnframt verði hagsmunir byggðalaga sem úthlutað er byggðkvóta tryggðir betur, en þeir vilja stundum víkja fyrir hagsmunum sameinaðra sveitarfélaga.

 

Línuívilnun

Aðalfundur svæðisfélagsins Kletts félags smábátaeigenda frá Ólafsfirði að Tjörnesi skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hækka nú þegar prósentu í línuívilnun og tryggja það að línuívilnun nái til allrar dagróðrabáta undir 15 metrum.

 

DSC03233.jpg

Sjómannaafsláttur, kvótamiðlun, grásleppan, STK, rafrænar afladagbækur, loðnu- og síldveiðar

Auk framangreindra málefna ályktaði Klettur um sjómannaafslátt.  Félagið er alfarið á móti öllum hugmyndum um afnám hans og bendir á að í tilviki smábátasjómanna eru útgerðarmennirnir jafnframt sjómenn, þannig að sjómannaafsláttur myndi lenda bótalaust á smábátaeigendum.

Klettur hvetur LS til að koma á fót kvótamiðlun. 

Klettur vill að upphafstími grásleppuvertíðar 2010 verði 10. mars og veiðitímabil 70 dagar.

Á fundinum var samþykkt að óska eftir að vöktun verði bæði fyrir báta með STK og AIS og rafrænar afladagbækur verði ekki skildaðar á báta minni en 15 brúttótonn.

 

Varðandi loðnu- og síldveiðar er Klettur andvígur beitingu flottrolls við þær, jafnframt sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er hvattur til að heimila einungis loðnuveiðar til manneldis.


Stjórn Kletts:

Pétur Sigurðsson Árskógssandi  formaður

Þröstur Jóhannsson Hrísey         gjaldkeri

Sigfús Jóhannesson Grímsey

Sigurður Kristjánsson Húsavík

Jón Kristjánsson Akureyri

 

 

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...