KRÓKUR - þorskur fari strax í 220 þús. tonn - Landssamband smábátaeigenda

KRÓKUR - þorskur fari strax í 220 þús. tonnSjóræningjahúsið á Patreksfirði var vettvangur aðalfundar KRÓKS, sem haldinn var 24. september sl.   Fjölmenni sótti fundinn og voru umræður líflegar þar sem þær náðu yfir flest svið smábátaútgerðarinnar.

Formaður LS og framkvæmdastjóri ávörpuðu fundinn. 


Örn fór m.a. yfir lánamál smábáta eftir hrun bankanna og þá erfiðleika sem félagsmenn glíma við vegna mikilla skulda.  

Örn ræddi strandveiðar og fór yfir tölfræði þeirra.   Hann sagði sjávarútvegsráðherra hafa boðað frumvarp í byrjun þings þar sem gert væri ráð fyrir áframhaldandi strandveiðum.

Grásleppuveiðar rúmuðust einnig í ávarpi Arnar, hann sagði þær afar mikilvægar fyrir smábátaútgerðina og hefðu veiðarnar nú skilað met aflaverðmæti - 1.500 milljónum.

Örn endaði innlegg sitt til fundarins með skoðunum sínum á úthlutun fiskafla á fiskveiðiárinu 2009/2010 og þeim vandamálum sem fylgja vegna skerðingar á ýsukvóta.  Hann sagði nauðsynlegt að sjávarútvegsráðherra þyrfti að koma að þessum málum ef forðast ætti atvinnuleysi sjómanna og beitningafólks og enn meiri erfiðleika í útgerð smábáta.  Hann greindi frá tillögu LS um frjálsar línuveiðar til áramóta og hækkun á línuívilnun sem næði til allra dagróðrabáta.  Næðu þær fram gætu smábátaeigendur horft fram á bjartari tíma í útgerðinni. 

 

Arthur Bogason formaður Landssambands smábátaeigenda fór yfir árangur Hafrannsóknastofnunarinnar í gegnum árin sem hann kvað vera afar rýran hvað aukningu veiðiheimilda varðaði. 

Hann ræddi um Evrópusambandið og lýsti áhyggjum sínum ef að inngöngu yrði. 

Formaður sagði strandveiðikerfið hafa hresst upp á lífið í hinum dreifðu byggðum og lýsti eindregnum stuðningi við kerfið.

 

Fundurinn gerði góðan róm af því sem fram kom í máli formanns og framkvæmdastjóra LS og var sammála um að krefjast aukinna veiðiheimilda handa dagróðrabátum, sókn væri besta og eina vörnin í þessum efnum sem öðrum. 

 

Bjarni Kristjánsson lagði fram tillögu um grásleppuveiðar sem gengur út á að C svæði verði stækkað til suðurs, nái suður að línu sem helmingar Breiðafjörð.  Tillagan var samþykkt samhljóða.


Í ályktunartillögum fundarins kemur fram að Strandveiðifélagið KRÓKUR leggur áherslu á að línuívilnun verði hækkuð og nái til allra dagróðrabáta.  Verði 20% hjá þeim sem beita í landi, 13,3% hjá trektabátum og 6,7% hjá vélabátum.  Krókur við að geymsluréttur verði lækkaður í 20% og fylgi aflamarki. 

Fullkomin eining var á fundinum með að skora á Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að auka nú þegar þorskveiðiheimildir í 220 þús. tonn.  

Auk þessa samþykkti fundurinn að leggja til að skötuselur verði undanþeginn kvóta sem meðafli við grásleppuveiðar. 

Krókur lýsti yfir stuðningi við strandveiðar.

Fyrningarleið var aðalfundi Króks ekki að skapi og var skoðun fundarmanna eindregin gegn henni.

 

Stjórn Strandveiðifélagsins Króks skipa:

Formaður:               Tryggvi Ársælsson

Gjaldkeri:                Friðþjófur Jóhannsson

Ritari:                     Hafþór Jónsson

Varamenn í stjórn:           

                             Þór Magnússon

                             Magnús Jónsson

 IMG_1977.jpg

Frá fundinum í Sjóræningjahúsinu á Patró

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...