Skuldamál - LS setur fram tillögu til lausnar - Landssamband smábátaeigenda

Skuldamál - LS setur fram tillögu til lausnarAð undanförnu hefur LS fundað með lánastofnunum.  Þegar hefur verið rætt við Kaupþing, Landsbankann og Íslandsbanka og fyrirhugaður er fundur með Sparisjóðabankanum. 

Umræður hafa verið mjög góðar á þessum fundum sem hafa sýnt að nauðsynlegt er að menn tali saman og viðri skoðanir á þeim vanda sem uppi er hjá fjölmörgum smábátaeigendum vegna gríðarlegra hækkana lána við hrun krónunnar og bankanna.

Fram hefur komið hjá fulltrúum bankanna að undanfarna mánuði hefur verið unnið að kortlagningu vandans og mótun úrræða sem bankarnir treysta sér í.  Hugmyndir þeirra ganga út á að skoða hvert og eitt tilvik og meta hvort úrræðin nái að koma viðkomandi á réttan kjöl. 

Þó staða margra sé nokkuð góð og úrræðin muni duga þeim er ljóst að dæmi eru um hið gagnstæða þar sem bankarnir sjá ekki framtíð í áframhaldandi starfsemi.

 

Það er skoðun LS að bankarnir hafi lagt sig fram við að móta tillögur til lausnar sem byggjast á sértækum aðgerðum, sem er sú lína sem stjórnvöld hefur lagt til að unnið verði eftir.   

Að vel athuguðu máli hefur LS komist að þeirri niðurstöðu að þessi aðferð er ekki vænleg til lausnar á vanda smábátaeigenda.  Í því samkeppnisumhverfi sem þeir lifa í verður fyrst að koma til almenn aðgerð sem færir þá inn í það umhverfi sem áætlanir þeirra og lánveitenda gerðu ráð fyrir.  Þegar búið er að skapa slíkt umhverfi gætu orðið til aðstæður fyrir sértækar aðgerðir sem eðlilegt þætti að beita hjá einstaka útgerðum.


Tillaga LS byggist á almennri aðgerð sem er eftirfarandi:

Greiðslubyrði láns þegar frystingu lýkur miðist við höfuðstól 1. mars 2008.

Gengismunur sem fallið hefur á lánið frá 1. mars 2008 flyst yfir í jöfnunarlán í krónum með 15 ára lánstíma vaxtalaust og án verðtryggingar.  Fyrsti gjalddagi þess láns verði 6 mánuðum eftir að lánstíma frumláns lýkur.


Það er mat LS að hér sé um sanngjarna leið að ræða þar sem bæði lánveitendur og lántakendur taka á sig tjón sem varð vegna forsendubrests.  Lánastofnanir halda sínum höfuðstól og fá hluta lánsins í krónur en lántakendur greiða lán sem er vaxtalaust og án verðtryggingar. 


 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...