Ísland án sjávarúvegsráðuneytis - stjórn LS mótmælir harðlega - Landssamband smábátaeigenda

Ísland án sjávarúvegsráðuneytis - stjórn LS mótmælir harðlegaStjórn Landssambands smábátaeigenda hefur fjallað um hugmyndir að sameiningu ráðuneyta.   Af því tilefni var eftirfarandi samþykkt:

 

 

í fréttum RÚV 5. desember sl. var fjallað um væntanlegt frumvarp ríkisstjórnar Íslands sem boðar að ráðuneyti sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar verði sameinuð í eitt ráðuneyti.

 

Stjórn Landssambands smábátaeigenda (LS) mótmælir því harðlega að sérstaklega tilgreint sjávarútvegsráðuneyti verði ekki lengur til staðar í íslenskri stjórnsýslu.

 

Fyrir skömmu voru tvö rótgrónustu atvinnuvegaráðuneyti þjóðarinnar sameinuð, ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðar.  LS gerði ekki athugasemdir við þá breytingu.  Sjávarútvegsráðuneytið var þar sérstaklega tilgreint og náin tengsl þessara atvinnuvega eru Íslendingum löngu kunn.

 

Fyrirhuguð breyting, undir heitinu „Atvinnuvegaráðuneyti", mun draga úr vægi sjávarútvegsins.  Ekki aðeins í huga Íslendinga, heldur hins, sem er ekki síður mikilvægt - í huga alþjóðasamfélagsins.

 

Meðal flestra þjóða er því svo fyrir komið að sjávarútvegurinn er undir öðrum „mikilvægari" ráðuneytum vegna þess hve lítið vægi hann hefur í þjóðarbúskapnum.  Því er ekki fyrir að fara hérlendis.  Sjávarútvegur er þungamiðja íslensks efnahagslífs í dag og hugsanlega aldrei mikilvægari en nú.  

 

Með fyrirhugaðar aðildarviðræður Íslands að ESB í huga telur stjórn LS nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr að Ísland haldi þeirri sérstöðu að sérstakt sjávarútvegsráðuneyti sé til staðar og tilgreint í stjórnsýslunni.

 

Stjórn LS skorar á stjórnvöld að falla frá fyrirhuguðum breytingum á skipan ráðuneyta.  Hún þjónar hvorki hagmunum Íslands innávið né útávið."

 


 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...