Undarlegt atvik við Eyjar - Landssamband smábátaeigenda

Undarlegt atvik við Eyjar


Hinn 22. desember birtist eftirfarandi saga eftir Arthur Bogason í Fiskifréttum undir fyrirsögninni „Undarlegt atvik við Eyjar“:

„Aðfangadagur handan hornsins. Hátíð ljóss og friðar. Ég hef löngum undrast þessa dagsetningu. Vetrarsólstöður ber að jafnaði upp á 21.
desember. Er ekki fullt tilefni til að gildishlaða hátíð ljóssins með því að færa aðfangadag á þau tímamót þegar móðir lífsins á jörðinni tekur til við að affrysta norðurhjarann og lengja daginn með birtu sinni?

Í tilefni þess að jólin eru að ganga í garð ætla ég að kasta fyrir róða dægurþrasi um frumvarp sjávarútvegsráðherra, umsókn Íslands að ESB og martröðum stórútgerðarmanna vegna strandveiða, línuívilnunar
og slægingarstuðuls.

 

Saga sem vel á við

Þess í stað ætla ég að greina frá mjög sérstöku atviki sem henti mig fyrir alllöngu, þegar ég reri einsamall á handfæri frá Vestmannaeyjum.  Atvik sem hefur af og til skotist upp í huga mér þegar ég rekst á skrif þeirra sem afneita öllu guðlegu í tilverunni og nota gjarnan orðið "fífl" með orðinu "trú" á undan. 

Ég er ekki að segja þessa sögu til að vera með eitthvert trúboð.  Mér finnst hún hins vegar eiga vel við nú. Jólaguðspjallið er jú löðrandi í undarlegum atburðum.  

 

Á Bensa VE

Þetta gerðist í nóvember 1986. Þá átti ég bátinn Bensa VE 234, yndislegasta bát sem ég hef átt. Bensi var rúmlega 8 tonna trébátur, smíðaður árið 1972 á Patreksfirði.  Hann var svo fagurlega smíðaður að enginn vafi leikur á því að skapari hans hafði í huga hinar fullkomnu kvenlegu línur.  Bensi var beinlínis „sexy".

Svo síðla árs er hæpið að ætlast til mikils á skaki við Vestmannaeyjar. Það var þó hægt að naga nokkur hundruð kíló á dag, með þrjósku og þolinmæði.

 

Fagur dagur

Þennan dag var óvanalega stilltur sjór. Spegill útí hafsauga. Ég fór í myrkri og tók stefnuna suður með Heimaey.  Þar sem Bensi gekk aðeins um 6 mílur
tók stímið á Helliseyjarhraunið á annan klukkutíma.

Dagsskíman var blönduð öllum regnbogans litum. Glitrandi háský spegluðust í sjónum til austurs. Þessi dagrenning er enn greipt í huga mér.

 

Drottning Atlantshafsins í heimsókn

Það var ekkert að hafa á Helliseyjarhrauninu. Þar vantaði hins vegar ekki drauganetin. Eftir að hafa tapað nokkrum slóðum í þeim fjandans óþverra færði ég mig inn að Suðurey að austanverðu.  Þar kroppaðist einn og einn fallegur fiskur. Hékk á því.

Um miðjan dag elti 30-40 kg lúða upp undir borðstokk. Drottning Atlantshafsins.  Ég varð svo heillaður að það hvarflaði ekki að mér að reyna að setja gogginn í hana.

Undir rökkrið kom smá skot sem bjargaði deginum. Þegar ég hafði uppi var skollið á myrkur. Tunglið var eini
ljósgjafinn.

 

Steinsofnaði undir stýri

Ég setti sjálfstýringuna á Bjarnarey, vel austan vitans á Nýja hrauni.  Gekk frá aflanum og smúlaði dekkið. Þegar ég settist inn í stýrishús fann ég hversu dauðþreyttur ég var orðinn.  Ég kippti niður glugganum í stjór.  Inn um hann lak hæg austan kæla. Ég kom mér fyrir í stólnum, sæll og þreyttur.

Og þá henti mig það sem ekki hafði gerst áður og mun vonandi aldrei gerast aftur. Ég steinsofnaði undir stýri.

 

Múkki inn um gluggann

Ég hrökk upp með andfælum. Í kjöltu mér skall múkki sem flogið hafði inn um gluggann. Hann hóf umsvifalaust að æla útum allt - aðallega á mig.

Viðurstyggileg grútarfýlan fyllti stýrishúsið. Ég sló múkkann í gólfið og olíugjöfina á stopp. Kvikindið hélt áfram að æla á gólfið í stýrishúsinu.

Ég átti í talsverðu basli við að handsama hann.  Ég þeytti fuglinum útum gluggann og henti upp hurðinni til að lofta út.

 

Þverhníptur hamarinn

Ég fór útá dekk og skimaði í kring. Þá fyrst varð mér alvarlega brugðið. Skammt framundan, kannski 200 metra eða svo, glitti í þverhníptan og biksvartan hamarinn sunnan vitans á Nýja hrauninu.

Ég fór inní stýrishús, setti á minnstu ferð, beint í austur.

Daginn eftir kom í ljós að sjálfstýringin hafði bilað.

Eftir stend ég með þetta furðulega atvik.

 

Hver eru líkindin?

Ekki kann ég að setja inn í líkindareikni hversu sennilegt það er að fugl með eins metra vænghaf og flýgur helst ekki í myrkri, slysist til að fljúga inn um 40×60 sentimetra glugga á bát sem ferðast á 10-12 km hraða í svartamyrkri. Og það þegar viðkomandi bátur er rétt um það
bil að fara sér á voða.  

Ég læt mér snjallari mönnum eftir líkindareikninginn.

Ég óska íslenskum sjómönnum farsældar og friðar
um jól og nýár.  Megi komandi misseri reynast ykkur aflasæl og gæfurík.


Mukki a flugi.tiff


 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...