Olíunotkun við fiskveiðar / Straumur ST 65 - Landssamband smábátaeigenda

Olíunotkun við fiskveiðar / Straumur ST 65Hinn 30. desember sl. birtust hér á síðunni upplýsingar um olíunotkun lítillar trillu sem fór nokkra róðra í strandveiðikerfinu sl. sumar.  Þar kom fram að fyrir hvert veitt kg af fiski var eytt u.þ.b. 0,1 lítra af olíu.
  
Tilefni þess að vekja athygli á þessum þætti fiskveiðanna eru linnulausar árásir LÍÚ og flestra annarra hagsmunasamtaka í sjávarútvegi á strandveiðar, línuívilnun og fleira er varðar smábátaútgerðina.  
Samþykkt aðalfundar LÍÚ 2009 innihélt m.a.:
  
LÍÚ mótmælir því harðlega að svokallaðar strandveiðar hafi tekist vel sl. sumar. Þvert á móti voru þær eins misheppnaðar og efni stóðu til".  

Í frétt LS var beint fyrirspurn til LÍÚ varðandi olíueyðslu þeirra útgerða á tímabilinu júlí - ágúst sl.  Svar hefur ekki borist.

Már Ólafsson, smábátaeigandi á Hólmavík sendi í kjölfar fréttarinnar eftirfarandi upplýsingar sem hljóta að teljast allrar athygli verðar:

„Mér datt í hug af tilefni fréttar á vef LS að skoða olíunotkun 2009.  Ég fékk 50 tonn af bolfiski og eyddi 4.157 lítrum sem kostuðu mig kr. 383.854.- án vsk, eða 7,67 kr. pr. kg.
Þegar ég tók grásleppuna með var eyðslan 6.422 lítrar, eða kr. 573.226.- án vsk.  

Heildaraflaverðmætið var rúmar 16 milljónir.

Hver lítri af olíu skilaði því 2.491 kr í aflaverðmæti.  Við erum að tala um hraðfiskibát - sem á víst að vera olíuhákur.
Gaman væri að bera þetta saman við togveiðarfæri til að sjá verðmætið þar á bak við hvern lítra".

Olíueyðsla Straums ST 65 var því um 3,6% af aflaverðmæti á árinu 2009.  Eyðslan pr. kg af bolfiski (4.157 L / 50 tonn) var rúmlega 0,08 lítrar á hvert veitt kg af fiski.

Miðað við það mat LÍÚ að strandveiðarnar hafi verið með öllu misheppnaðar hlýtur útgerð Straums ST 65, sem er krókaaflamarksbátur, að falla í sama flokk.  

Það verður fróðlegt að sjá hver olíueyðslan var/er hjá þeim sem svo hart dæma.      


 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...