Strandveiðar - Landssamband smábátaeigenda

StrandveiðarEftirfarandi grein eftir Ólaf Hallgrímsson birtist í jólablaði Þingmúla.  Ólafur er formaður Félags smábátaeigenda á Austurlandi og í stjórn Landssambands smábátaeigenda.


Þegar maður fer að velta fyrir sér útgerð smábáta á Austurlandi þá eru þau ekki mörg nesin eða víkurnar þaðan sem ekki hefur verið stunduð útgerð frá í einhverri mynd í gegnum aldirnar.

Nú eru smábátar þ.e. bátar undir 15 brt. gerðir út frá öllum þéttbýlisstöðum á Austurlandi.  Algengt útgerðarform smábáta er fjölskylduútgerð og því er starfsumhverfi það sem löggjafinn setur útgerðum gríðarlega mikilvægt fyrir rekstur og afkomu hverrar fjölskyldu og jafnframt byggðarlaga, því útgerð smábáta er mjög atvinnuskapandi.

100_5468_2.jpg

Það er mín reynsla að aðgerðir og upphrópanir stjórnmálamanna sem setja sjávarútveginn á pólitískt uppboð um hverjar kosningar hafi skapað hvað mesta erfiðleika og óvissu í útgerð allt frá upptöku kvótakerfisins.  Einnig gera miklar sveiflur í úthlutun aflaheimilda ár frá ári alls ómögulegt að skipuleggja rekstur útgerða fram í tímann.  

Að sækja fisk í sjó á smábátum er hagkvæm leið til að nýta fiskimið á grunnslóð.  Olíunotkun á hvert veitt tonn er minni hjá smábátum en stærri skipum, smærri bátar stunda eingöngu dagróðra þannig að fiskurinn berst ávallt ferskur að landi sem tryggir hámarks gæði og verð.

Síðasta sumar var sett á nýtt veiðikerfi smábáta svokallað strandveiðikerfi, þar gátu smábátar hafið handfæraveiðar án kvóta en með daga- og aflahámarkstakmörkunum.  Reyndist veiðikerfið vel og vonandi verður framhald þar á,  það á að gera sem flestum kleift að hefja smáútgerð.


Færa á stór afkastamikil skip fjær landi 

Rannsóknir hafa sýnt fram á að líkur eru á að við ströndina séu nokkrir staðbundnir stofnar þorsks.  Veðrátta hefur alla tíð stjórnað sókn smábáta og því hafa fiskimið á grunnslóð ekki verið ofnýtt af þeirra völdum.  Hin síðari ár hefur nokkuð borið á því að stór skip sem gera út á línu sæki á mið nærri landi og inn á firði og flóa.  Af þessu hafa margir smábátasjómenn áhyggjur og telja að ekki eigi að heimila mjög afkastamikil skip svo nærri landi nema að öruggt sé að staðbundnum stofnum þorsks sé ekki hætta búin með þeim veiðum.  Stór skip með afkastamikil veiðarfæri eiga vissulega fullan rétt á sér lengra frá landi og á meira dýpi en ég er þeirrar skoðunar að strandveiðar stundaðar af smábátum skili góðri og hagkvæmri nýtingu á fiskimiðunum næst landi þjóðinni til heilla.“
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...