Alþjóðlegur fundur um grásleppumál - Landssamband smábátaeigenda

Alþjóðlegur fundur um grásleppumál


Hinn 5. febrúar sl var haldinn í Kaupmannahöfn hinn árlegi alþjóðlegi fundur um grásleppumál.  Þetta var 22. fundurinn síðan 1989 og sá fjölmennasti.  Þátttakendur voru 38, fulltrúar frá öllum þeim veiðimannasamtökum sem grásleppan skiptir máli, framleiðendum kavíars ásamt út- og innflytjendum sem og aðilum í smásölu.  Samtals mættu fulltrúar frá 11 löndum á fundinn.  
Fundirnir ganga undir heitinu LUROMA (Lumpfish Roe Matters) og hefur Landssamband smábátaeigenda á höndum undirbúning og skipulagningu þeirra.

Samkvæmt því sem fram kom á fundinum er birgðastaða hjá framleiðendum kavíars lægri en dæmi eru um til fjölda ára.  Þetta gefur vissulega tilefni til bjartsýni fyrir komandi vertíð á Íslandi.  Einungis fjórar þjóðir veiða grásleppu að einhverju marki, þ.e. Nýfundnaland, Grænland, Ísland og Noregur.

 Vertíðin við Nýfundnaland hefur brugðist 3 ár í röð en veiðin annars staðar gengið samkvæmt væntingum og rúmlega það á Íslandi.  Hvað sem því líður er vert að hafa í huga að ekkert tilefni er til að afskrifa veiðar Nýfundnalendinga.  Árið 2003 datt veiðin hjá þeim niður í lítið sem ekki neitt, en tveimur árum síðar veiddu þeir helming heimsaflans.

Kavíarmarkaðurinn fyrir grásleppuhrogn er talinn þola u.þ.b. 30-32 þúsund tunnur af hrognum árlega.  Á síðasta ári var heildarveiðin innan við 24 þúsund tunnur.  Mikill áhugi er á grásleppuveiðunum þetta árið á Íslandi og að öllum líkindum munu fleiri sækja í þessar veiðar en til fjölda ára.  Á síðasta ári fóru 279 bátar til grásleppuveiða og heildarveiðin var tæpar 11.600 tunnur af hrognum, eða rúmlega helmingur heimsaflans.      
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...