Grásleppunefnd LS leggur til 60 veiðidaga - Landssamband smábátaeigenda

Grásleppunefnd LS leggur til 60 veiðidagaEins og komið hefur fram fundaði Grásleppunefnd LS í gær 10. febrúar.  Það er mat nefndarinnar að markaður sé nú góður fyrir grásleppuhrogn bæði hvað varðar magn og verð.   Í ljósi þess samþykkti nefndin að óska eftir því við sjávarútvegs-  og landbúnaðarráðuneytið að veiðidagar á komandi vertíð verði 60.

 

Á fundinum voru miklar umræður um  ástand stofnsins og töldu menn hann vera sterkan sem er í samræmi við álit Hafrannsóknastofnunar.   Í skýrslu stofnunarinnar kemur fram að veiði á hverja sóknareiningu sl. þrjú ár hafi verið mjög góð.


Grásleppunefnd samþykkti eftirfarandi:

„Fundur í Grásleppunefnd LS haldinn 10. febrúar 2010 vekur athygli á sívaxandi kröfu neytenda eftir upplýsingum um heilnæmi og sjálfbærni við nýtingu einstakra fiskstofna sem byggðar eru á vísindalegum rannsóknum.  Þar er grásleppan engin undantekning.

Undanfarin ár hefur lítil áhersla verið lögð á að rannsaka þennan mikilvæga nytjastofn.  Helsta ástæðan er vafalaust sú að engar blikur hafa verið á lofti um að stofninn eigi undir högg að sækja og jafnvel þveröfugt farið hin síðustu ár.

Grásleppunefnd LS skorar því á stjórnvöld og Hafrannsóknastofnunina að efla til muna rannsóknir á hrognkelsastofninum.“

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...